Innlent

Lögreglumaðurinn lýsti sig saklausan

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku á konu á þrítugsaldri.
Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku á konu á þrítugsaldri. Mynd/Vilhelm
Lögreglumaðurinn sem ákærður er fyrir líkamsárás og brot í starfi á Laugavegi í sumar lýsti sig saklausan af ákærunni við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku á konu á þrítugsaldri. Í ákæru kemur fram að hann hafi rykkt án fyrirvara í hægri handlegg konunnar þannig að hún féll með bakhlutann á bekkarm og þaðan í götuna.

Ákærði hafi síðan dregið hana stuttan spöl eftir götunni, sett vinstra hné á bak hennar, hægra hné á hnakka hennar og handjárnað hana án þess að aðstæður krefðust þess. Hann hafi auk þess sett konuna á magann með höfuðið á undan inn í lögreglubifreið, að því er segir í ákærunni.

Konan hlaut mar á hægri upphandlegg, mar á hægri mjaðmakamb, mar utanvert á hægra hné, bólgu á hægra augnloki og mar yfir hægra kinnbein. Ríkissaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan krefst 1,5 milljóna króna í skaða- og miskabætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×