Innlent

Lögreglumenn í áfallahjálp eftir útkallið

Um níutíu byssur voru fjarlægðar úr Veiðisafninu á Stokkseyri. Safnið verður opið áfram.
Um níutíu byssur voru fjarlægðar úr Veiðisafninu á Stokkseyri. Safnið verður opið áfram.
Lögreglan á Selfossi vinnur nú að rannsókn á öllum þáttum máls er upp kom um helgina þegar forstöðumaður Veiðisafnsins á Stokkseyri skaut úr skambyssum við heimili sitt, sem jafnframt hýsir safnið. Þeir lögreglumenn sem fóru á vettvang og handtóku manninn hafa fengið áfallahjálp í kjölfarið. Rannsókn málsins beinist meðal annars að hótunum þeim og ógnunum sem maðurinn hafði í frammi við handtökuna, auk almannahættu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær handtók lögreglan á Selfossi forstöðumann safnsins á Stokkseyri um helgina eftir að skothvellir höfðu heyrst frá heimili hans. Héraðsdómur Suðurlands hafnaði síðan kröfu lögreglustjórans á Selfossi um gæsluvarðhald og geðrannsókn á manninum.

Lögfræðingar og lögreglumenn héldu fund um framhald málsins í gær og ákvörðun héraðsdóms mun að líkindum ekki verða kærð til Hæstaréttar, þar sem rannsókn málsins hefur gengið fljótt og vel.

Í yfirlýsingu sem Páll Reynisson sendi frá sér í gær kveðst hann hafa gert mistök, sem hann beri einn ábyrgð á. Hann biðji þá fyrirgefningar sem hann kunni að hafa hryggt eða valdið ótta og sé farinn í áfengismeðferð.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×