Lífið

Lou Reed elskaði Ísland

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Lou Reed framlengdi dvölina á Íslandi eftir tónleika sína í Laugardalshöllinni árið 2004.
Lou Reed framlengdi dvölina á Íslandi eftir tónleika sína í Laugardalshöllinni árið 2004.
„Hann var alveg virkilega næs og tónleikarnir algjörlega æðislegir,“ segir Ísleifur B. Þórhallson, tónleikahaldari, en hann sá um tónleika Lou Reeds í Laugardalshöllinni fyrir níu árum. Lou Reed lést í dag, 71 árs að aldri.

Ísleifur var Lou Reed innan handar á meðan á dvöl hans stóð. „Hann var svo ánægður hér á landi að hann framlengdi dvölina. Við þvældumst því með honum um landið og ég fékk Jónatan Garðarsson til að vera fylgdarmann hans. Lou var svo ánægður með Jónatan að hann sagði: „Why can‘t you have a Jonathan in every country?“

Ísleifur segir að kappinn hafi skellt sér í Bláa Lónið á hverjum degi en í fyrstu hélt hann að heilsulindin heimsfræga væri kjaftæði. „Hann skellti sér í Lónið alla dagana. Ég er handviss um að hann leit út fyrir að vera töluvert yngri þegar hann fór héðan.“

Troðfullt var á tónleikana í Laugardalshöllinni. „Við vorum búin að heyra að hann ætti það til að sleppa því að spila vinsælustu lögin sín. En í Höllinni spilaði hann þetta allt saman. Hann spurði mig líka eftir tónleikana hvort ég væri ekki örugglega sáttur með þetta því hann væri gjörsamlega búinn á því – og ætti ekkert eftir!“

Reed dvaldi á Hótel 101 á meðan á dvöl sinni stóð og náði meðal annars að upplifa Menningarnótt í Reykjavík. „Hann fylgdist með hátíðarhöldunum af svölum hótelsins. Óli Palli endaði dagskránna á því að spila „Perfect Day“ svo Reed fylgdist bara með 100 þúsund Íslendingum hlýða á lag sitt af svölum hótelsins.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×