Skoðun

Lúpínuþráhyggjan

Einar Gunnar Birgisson áhugamaður um umhverfisvernd skrifar
Það er til fólk sem er haldið þráhyggju vegna lúpínu og finnst lúpínan vera að taka yfir landið og talar um innrás framandi tegundar, þó að elstu heimildir um notkun hennar á Íslandi séu frá árinu 1885. Nú er mikil vá fyrir dyrum segir þetta fólk og grípa þarf til varna. Hagsmunaaðilar hafa verið að hvísla þessu í eyra umhverfisráðherra og svo auðvitað hvísla þeir líka sem er illa við lúpínu eingöngu vegna þess að hún er „útlensk" planta. Stórtæk, rándýr og mannaflsfrek útrýmingarherferð með illgresiseyði stendur fyrir dyrum. Óvinurinn er lúpínan, vígvöllurinn er villt náttúra Íslands og herkostnaðinn borga skattborgararnir.

Roundup er illgresiseyðir sem nota á í stórum stíl í villtri náttúru Íslands og það með náttúruvernd að yfirskyni. Það er þá ekki í fyrsta sinn sem Roundup er notað undir slíku yfirskini því Monsanto fyrirtækið sem framleiðir Roundup hefur erlendis ítrekað verið ásakað um að fjármagna áróður gegn framandi plöntum með það að augnamiði að selja eitrið. Ég hvet lesendur til að kynna sér skýrslu Þrastar Eysteinssonar og félaga þar sem þetta kemur skýrt fram og einnig hörð gagnrýni á fyrirætlanir stjórnvalda. Hún er aðgengileg á netinu. Skýrslan heitir: Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting."

Þau gögn sem lögð eru fram til grundvallar og réttlætingar hernaðinum eru meingölluð og það skín í gegn hagsmunapot og illska út í lúpínu því hún er „útlensk" planta. Umhverfisráðherra hefur kokgleypt áróðurinn og vitleysuna og hefur ekki bein í nefinu til að viðurkenna mistök sín. Við að dreifa eitrinu stendur til að nota stórvirkar vinnuvélar með úðadælu þar sem land er véltækt og alaskalúpínan þétt, en fjórhjól þar sem stærri vélar komast ekki að svo vitnað sé í skýrslu til umhverfisráðherra frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðslu ríkisins. Þessi skýrsla er full af vitleysu og hindurvitnum og eru mér lærðari aðilar betur fallnir til að hrekja það sem þar stendur og bendi ég aftur á skýrslu Þrastar Eysteinssonar og félaga.

Lúpínan hefur verið hér í meira enn 100 ár og er engin ógn við lífríkið heldur gríðarlega öflug landgræðsluplanta sem byggir upp jarðveginn, veitir öðrum gróðri skjól og klæðir örfoka land. Það er furðulegt að umhverfisráðherra skuli falla í gildruna og láta blekkja sig upp úr skónum. Sóun almannafjár og stórfelld eiturefnaherferð í villtri náttúru landsins er framundan og er í boði Monsanto og Vinstri grænna, flokksins sem kennir sig við náttúruvernd. Ég hvet alla sem annt er um náttúru Íslands til að taka höndum saman og berjast gegn þessum hörmulegu áformum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×