Innlent

Lýður Guðmundsson greiðir tvær milljónir í sekt - Bjarnfreður sýknaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarnfreður Ólafsson við þingfestingu málsins, en fyrir aftan hann eru Lýður Guðmundsson og Gestur Jónsson verjandi hans.
Bjarnfreður Ólafsson við þingfestingu málsins, en fyrir aftan hann eru Lýður Guðmundsson og Gestur Jónsson verjandi hans.

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, var í dag dæmdur til að greiða tveggja milljóna króna sekt vegna hlutafjáraukningar í Exista í lok árs 2008. Ákæran var í tveimur liðum.

Lýður var einn ákærður í fyrri hluta ákærunnar, sem sneri að sjálfri hlutafjáraukningunni, og var sakfelldur fyrir þann lið. Bjarnfreður Ólafsson hæstaréttarlögmaður var ásamt Lýð ákærður í seinni hluta ákærunnar. Sá liður sneri að því að senda ranga tilkynningu til Fyrirtækjaskrár. Þeir voru báðir sýknaðir fyrir þann lið. Ólafur Þ. Hauksson, sem flutti málið af hálfu ákæruvaldsins, segir að nú verði farið yfir forsendur dómsins og ríkissaksóknari muni svo taka ákvörðun um það hvort því verði áfrýjað.

Hlutafé Existu var aukið um fimmtíu milljarða en aðeins greitt fyrir það einn milljarður króna í lok árs 2008. Við aðalmeðferð málsins, í byrjun maí, fór sérstakur saksóknari fram á átján mánaða fangelsisdóm yfir Lýði vegna málsins. Hann krafðist sex til átta mánaða fangelsisdóm yfir Bjarnfreði, sem sá um að senda tilkynningu um málið til Fyrirtækjaskrár í desember 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×