Innlent

Lyfjanauðgunum fjölgaði í fyrra

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta (önnur frá hægri), kynnti ársskýrsluna á fundi í gær. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að 22 urðu fyrir lyfjanauðgun í fyrra.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta (önnur frá hægri), kynnti ársskýrsluna á fundi í gær. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að 22 urðu fyrir lyfjanauðgun í fyrra. fréttablaðið/gva
Alls leituðu 22 aðstoðar vegna lyfjanauðgana í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Stígamóta. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir að lyfjanauðganamál tengist oft tveimur skemmtistöðum. Kona sem varð fyrir lyfjanauðgun segir þörf á vakningu og úrbótum.

„Við erum að tala um mjög gróft ofbeldi þegar menn eru farnir að skipuleggja verknaðinn líkt og í þessum brotum,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. Í nýrri ársskýrslu samtakanna kemur fram lyfjanauðgunum fjölgaði á síðasta ári. Ljóst þykir að brotavilji gerenda sé einbeittur enda þurfi að hafa töluvert fyrir verknaðinum og hann sé skipulagður fyrir fram.

Alls leituðu 22 einstaklingar til Stígamóta í fyrra eftir að hafa verið byrlað ólyfjan og nauðgað í kjölfarið. Það eru fleiri tilvik en nokkru sinni áður. Í flestum tilvikum kemur gerandinn lyfinu, sem er í duft- eða töfluformi, fyrir í glasi þolanda sem missir minnið og hluta meðvitundar.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að tveir skemmtistaðir í borginni séu oftar nefndir en aðrir í tengslum við mál af þessu tagi. Þetta eru B5 við Bankastræti og Austur við Austurstræti.

„Þetta er ofboðslega erfitt fyrir alla að eiga við. Ef manneskja hefur einbeittan ásetning þá er svo lítið sem við getum gert. Ég held reglulega fundi með mínu starfsfólki og við höfum búið okkur til verkferla. Við erum alltaf að reyna að gera betur og reynum að vera mjög vakandi. Okkur er alls ekki sama og ég fagna umræðunni,“ segir Björn Jakobsson, eigandi B5.

Ásgeir Kolbeinsson er eigandi Austur. Hann segist meðvitaður um vandann og hafa nú þegar ráðist í aðgerðir vegna þessa. „Við gerum auðvitað allt sem við getum og þegar við verðum varir við eitthvað þessu líkt þá tökum við á því um leið.“ Aðspurður segir hann ekki óeðlilegt hlutfallslega séð að mál sem þessi komi oft upp á stöðunum tveimur þar sem þeir séu mjög vinsælir og fjölsóttir.

Aðrir skemmtistaðaeigendur sem rætt var við segjast fremur vanmáttugir gagnvart málum sem þessum og kalla eftir samstilltu átaki lögreglu og annarra skemmtistaðaeigenda til þess að uppræta megi vandann.

Mikil umræða var um lyfjanauðganir á síðasta ári þegar Thelma Dögg Guðmundsdóttir ýtti úr vör átaki gegn slíkum nauðgunum eftir að henni var byrluð ólyfjan á B5. Hún varð þess vör og leitaði aðstoðar dyravarða, sem skeyttu litlu um málið á þeirri stundu. „Ég er ekki hissa á þessari fjölgun og það er mín tilfinning að flestir þekki til að minnsta kosti einnar manneskju sem lent hefur í þessum aðstæðum,“ segir Thelma Dögg. Hún hyggst standa fyrir sams konar átaki í ár. „Það er svo mikilvægt að halda umræðunni á lofti því við erum svo gjörn á að hunsa vandamálin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×