Skoðun

Lyfjaneysla Íslendinga afleiðing af slöku velferðarkerfi?

Anna Birna Jensdóttir skrifar
Athygli vekur endurtekinn fréttaflutningur um lyfjanotkun Íslendinga. Þjóðin hefur verið methafi langtímanotkunar á svefn- og kvíða (róandi)lyfjum sem og geðlyfjum í áratugi samanborið við vestræn lönd. Lyfjanotkun eykst með aldrinum og er mest hjá 70 ára og eldri. Íbúar hjúkrunarheimila sem eru að meðalaldri 84 ára, nota ennfremur verulega meira af lyfjum í fyrrnefndum lyfjaflokkum en íbúar hjúkrunarheimila í öðrum löndum.

Hvað veldur og hvaða skýring er á því að þrátt fyrir að þessi þekking um ástandið í lyfjamálum hafi legið fyrir svo áratugum skiptir að ekki hefur verið ráðist í umbótastarf.

Að hvaða leyti er þjóðfélagið okkar frábrugðið, að réttlætanlegt eða þörf sé á að nota svefnlyf, róandi lyf og geðlyf í þessum mæli? Íslendingar hampa því á tyllidögum að hér sé skipulagt norrænt velferðarkerfi og að við verður allra manna elst. Því ætti að fylgja vellíðan þar sem ofnotkun lyfja væri óþörf. Þegar aldurinn færist yfir og líkaminn byrjar að hnigna og slitna fara að koma fram sjúkdómar sem oftar fylgja hækkandi aldri. Þá koma heilbrigðisvísindin mjög að gagni og lyfjanotkun dregur úr afturför, eykur vellíðan og lífsgæði einstaklinga samhliða heilsueflingu og annarri meðferð s.s. þjálfun, aukinni hreyfingu og útivist. Lykilatriði er að lyfjanotkun geri gagn, sé örugg og hagkvæm.

Breytingaskeið

Einstaklingurinn gengur í gegnum mikið breytingaskeið þegar líður að skilgreindum ellilífeyrisaldri samkvæmt lögum. Samfélagið hefur búið sér til reglur sem steypa aldurshópinn í eitt. Ákveðið er hvenær launavinnu skuli hætt, hvaða ráðstöfunartekjur eru nægjanlegar og margvíslegar skorður eru settar á daglegt líf. Flestir þurfa að hlíta þessum lögmálum óháð heilsufari, vilja eða félagslegri stöðu. Munur getur verið mikill á aðstæðum karla og kvenna, einstæðinga og fólks í sambúð, launamanna og atvinnurekenda. Í raun tapast ákveðið sjálfræði og tök á eigin fjármálum. Möguleikar til að afla aukinna tekna verður illmögulegur. Samhliða getur fólk verið að glíma við sjúkdóma og afleiðingar þeirra s.s. verki og þá staðreynd að samtímamönnun fækkar jafnt og þétt.

Það er mikill missir að ganga í gegnum breytingar á eigin stöðu, jafnvel heilsufari og að missa sína nánustu. Kvíði grípur um sig og þunglyndi og einangrun getur ágerst. Svefn getur truflast vegna kvíðans og andlegra og líkamlegra verkja. Þá er gripið til lyfjagjafanna sem vissulega geta átt rétt á sér tímabundið. Því miður er eins og skorti á önnur verkfæri hér á landi til aðstoðar fólki og lyfjanotkunin verður að langtímanotkun. Eldar eru slökktir í stað þess að fyrirbyggja eldinn. Fylgikvillar langtímanotkunar eru jafnvel farnir að hafa verri áhrif en gagnsemi lyfs.

Þriðjungur á hjúkrunarheimilum

Um þriðjungur aldurshópsins 67 ára og eldri býr á hjúkrunarheimilum. Þar er meðalaldur 84 ára. Hjá þeim einstaklingum hefur heilsufar hnignað með þeim hætti jafnt og þétt að þeir geta ekki annast eigið heimilishald, né daglegar þarfir sínar án hjúkrunar allan sólarhringinn. Heilabilun hrjáir stærstan hluta þeirra, síðan hjarta- og lungnasjúkdómar, gigt, þunglyndi, kvíði, langvinnir hrörnunarsjúkdómar, krabbamein, blóðsjúkdómar, sykursýki og léleg nýrnastarfsemi. Verkir eru daglegt viðfangsefni.

Eðli málsins samkvæmt nota íbúar hjúkrunarheimila einna mest af lyfjum hér á landi, yfir 60% þeirra nota yfir 9 lyfjategundir að meðtöldum bætiefnum s.s. lýsi og ávísuðum vítamínum. Langflest þessara lyfja hefur verið ávísað löngu áður en flutningur á hjúkrunarheimilið átti sér stað. Í aðdraganda flutnings á hjúkrunarheimili hefur umönnun verið að mestu í umsjá fjölskyldu, þar sem hún er til staðar. Töluvert vantar uppá að boðið sé uppá heildræna heimaþjónustu þar sem fjárveitingar eru of lágar til að tilætluð markmið laganna séu raunhæf. Valfrelsi er jafnframt takmarkað um hvert hægt er að leita eftir þjónustu.

Baráttan við kerfið

Bráðainnlagnir á sjúkrahús, jafnvel endurteknar er reynsla flestra og baráttan við kerfið um að fá mat á því hvort vistunar er þörf. Rétturinn til vistunarmats er ekki til staðar nema að uppfylltum fjölmörgum skilyrðum þar sem markópurinn er allur settur undir sömu viðmið. Slík lífsreynsla bægir ekki frá kvíðanum. Einstaklingurinn þarf að takast á við að aðstæður séu orðnar þannig að hann/hún er orðin öðrum háður, fjölskyldu sinni og kerfinu. Orðin fyrir á bráðasjúkrahúsinu, bíðandi eftir mannsæmandi búsetu og hjúkrun. Valfrelsi um hjúkrunarheimili er í raun ekki, umsóknareyðublaðið segir til um að velja þurfi þrjá staði. Síðan þarf nánast að taka það sem fyrst býðst.

Kvíðinn, hvert fer maður, fær maður einbýli eða þarf að búa með ókunnugum. Búsetan á sjúkrahúsinu gæti skilið eftir sig margvíslega reynslu af sambýli með fárveiku fólki, jafnvel fólki í ruglástandi. Við flutninginn tapast sjálfræði á eigin fjármálum. Ríkið hefur ákveðið að rúmlega 60 þúsund sé það sem manneskja á hjúkrunarheimili ber að hafa milli handanna. Aðrar tekjur fara til greiðsluþátttöku í dvalar-og umönnunarkostnaði, þar með talið lyfjakostnaði upp að rúmlega 290 þúsund króna hámarki í greiðsluþátttöku.

Hjúkrunarþarfir og félagslegar þarfir kalla á meiri ummönnunartíma en rekstur hjúkrunarheimila leyfir. Samsetning starfsfólks þarf að byggja á meiri fagþekkingu en fjárheimildir hjúkrunarheimila gera ráð fyrir. Sú staðreynd hefur þær afleiðingar að það er erfitt að ná viðhlítandi árangri í gæðaumbótastarfi hvort heldur um er að ræða lyfjameðferð, eða lífsgæðatengda þætti eins og félagslega virkni, útivist, líf án verkja og depurðar og hegðunarvandamála. Fjárlög íslenska ríkisins ákvarða fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimila. Fátt virðist í augsýn til umbóta í þessum efnum. Haldbærasta skýringin er hversu aldurstengdir fordómar og forræðishyggja eru ríkjandi í okkar þjóðfélagi. Norræna velferðarkerfið í málefnum eldri borgara á Íslandi er að ríkið sjái fyrir lágmarksþörfum. Verður framtíðin þannig að ,,Hver er sinnar gæfu smiður" hvað viðbótarþjónustu varðar umfram lágmarksþjónustuna sem velferðakerfið smíðar okkur til handa?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×