Viðskipti innlent

Mál gamla Straums keimlíkt máli tveggja miðlara hjá Kaupþingi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
William Fall, fyrrverandi forstjóri Straums, stýrði bankanum frá 29. maí 2007 til 18. mars 2008. Fall, sem er virtur í bankaheiminum og með yfir 30 ára reynslu, er nú yfirmaður hjá RBS. Í bakgrunni er Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Straums.
William Fall, fyrrverandi forstjóri Straums, stýrði bankanum frá 29. maí 2007 til 18. mars 2008. Fall, sem er virtur í bankaheiminum og með yfir 30 ára reynslu, er nú yfirmaður hjá RBS. Í bakgrunni er Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Straums.
Sérstakur saksóknari er nú með til rannsóknar meinta markaðsmisnotkun Straums-Burðaráss á árunum 2007 og 2008. Málið er keimlíkt öðru máli þar sem tveir miðlarar hjá Kaupþingi voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun í desember 2009.

Sérstakur saksóknari rannsakar meinta markaðsmisnotkun Straums-Burðaráss fjárfestingabanka vegna falskrar eftirspurnar með hlutabréf bankans á árunum 2007 og 2008. DV í dag greinir frá málinu en í frétt blaðsins segir að kæra hafi borist embættinu frá Fjármálaeftirlitinu fyrr á þessu ári.

Fréttastofa hefur eftir traustum heimildum að fréttin sé rétt og að embætti sérstaks saksóknara hafi meinta markaðsmisnotkun Straums-Burðaráss til rannsóknar. Áréttað skal að málið tengist ekkert nýja Straumi (Straumi fjárfestingabanka) , sem er fjármálafyrirtæki í eigu ALMC hf.

Málið mun snúast um tilburði starfsmanna Straums-Burðaráss til að hafa áhrif á hlutabréfaverð í Straumi með mörgum og ítrekuðum tilboðum í bréf félagsins í Kauphöll rétt fyrir lokun markaða tiltekna daga en grunsemdir eru um að þannig hafi verið sköpuð fölsk eftirspurn eftir bréfum í félaginu.

Eitt slíkt mál hefur komið til kasta dómstóla eftir bankahrun.

Tveir fyrrverandi verðbréfamiðlarar hjá Kaupþingi, Daníel Þórðarson og Stefnir Ingi Agnarsson, voru í desember 2009 dæmdir í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir markaðsmisnotkun. Atvik málsins voru þau að þeir settu inn kauptilboð í skuldabréfaflokk Exista sex sinnum, í janúar og febrúar 2008, skömmu fyrir lokun markaða, þannig að tilboðin hefðu áhrif á dagslokagengi viðkomandi skuldabréfa í Kauphöllinni.

Atvikalýsingin er því keimlík því sem er til rannsóknar vegna Straums-Burðaráss.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki tjá sig um rannsóknina í samtali við fréttastofu þegar eftir því var leitað.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar fyrrverandi aðaleiganda Straums-Burðaráss, sagði að rannsókn á meintri markaðsmisnotkun Straums væru fréttir fyrir Björgólf Thor. Hann hafi aldrei heyrt af slíku áður. Ragnhildur sagði að Björgólfur Thor hefði ekki verið yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara vegna málsins. Hann hafi aðeins einu sinni farið í skýrslutöku hjá embættinu, þá sem vitni vegna rannsóknar á málefnum Landsbankans. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×