Innlent

Málamiðlun stjórnarflokka ofar kosningaloforðinu

Svavar Hávarðsson skrifar
Þingflokkur Sjálfstæðismanna er ekki einhuga um hvort halda skuli þjóðar­atkvæðagreiðslu um áfram­haldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Skilja má ­formann ­utanríkismálanefndar svo að stjórnarsáttmáli ­ríkisstjórnarinnar trompi kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er Ragnheiður ­Ríkharðsdóttir, ­flokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ­þeirrar skoðunar að það sé skýr vilji ­forystu flokksins að efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram ­aðildarviðræðum við ESB. Um kosningaloforð hafi verið að ræða og bera skyldi málið undir ­þjóðina á fyrri hluta ­kjörtímabilsins. Þetta voru ­viðbrögð ­hennar við þeirri ­skoðun ­Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, að ­ekkert sé í hendi um það hvort málið verði lagt í dóm ­þjóðarinnar.





Túlkanir þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar ekki allar eins afdráttarlausar og Ragnheiðar.

Birgir Ármannsson, ­þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ­formaður ­utanríkismálanefndar, vísar til þess sem stendur í stjórnar­sáttmála ­ríkisstjórnarinnar, landsfundarsamþykktar Sjálfstæðisflokksins og ­samþykktar flokksþings ­Framsóknarflokksins þegar hann er ­spurður um afstöðu til umræðunnar um þjóðar­atkvæðagreiðslu um áfram­haldandi aðildarviðræður.

„Í því felst að engin ­ákvörðun hefur verið tekin um þjóðar­atkvæðagreiðslu; hvort hún fari fram eða hvenær hún fari fram. Það sem einstakir þingmenn eru að segja á þessari stundu um það, eru persónulegar skoðanir en ekki stjórnarstefnan eða stefna þeirra flokka sem þeir standa fyrir.“

Spurður um hvort hann sé þar að vísa í orð þingflokksformannsins, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þá svarar Birgir því til að hann ætli sér ekki að munnhöggvast við einstaka félaga sína.

Um það hvort ekki hafi verið um skýrt kosningaloforð að ræða af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ­haldin, óháð því sem stendur í stjórnarsáttmála stjórnarinnar, svarar Birgir. „Hvort er nýrra? Hvort er málamiðlun tveggja flokka? Það sem segir í stjórnarsáttmálanum er skýrt svo langt sem það nær, og í því felst ekkert umfram það sem felst í orðanna hljóðan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×