Lífið

Mannréttindabrot að geta ekki keypt rauðvínið sitt

Motorhead
Motorhead
„Það er mannréttindabrot að geta ekki keypt sitt rauðvín," segir Aðalbjörn Tryggvason, söngvari rokksveitarinnar Sólstafa.

Ekki eru allir á eitt sáttir við ákvörðun ÁTVR og stjórnvalda um að banna sölu á rauðvíni ensku rokksveitarinnar Motörhead hér á landi. Ástæðan sem gefin var upp var sú að nafnið sé vísun í amfetamínneyslu og sveitin syngi um stríð, óábyrgt kynlíf og fíkniefni.

„Tónlist er list og það er verið að kenna rauðvín við listform. Hvernig geturðu sagt að listform stuðli að eiturlyfjaneyslu, stríði og óábyrgu kynlífi. Þetta er út í hött," segir Motörhead-aðdáandinn Aðalbjörn, sem er ósáttur við gang mála. „Þetta er bara plebbismi. Á hvaða öld lifum við eiginlega? Þú tekur ekki LSD þótt þú hlustir á Let it Be. Börn eru í tölvuleikjum og þau fara ekki að drepa fólk. Þetta er forræðishyggja af verstu stort," segir hann og bætir við: „Þegar ég sá þetta á netinu hugsaði ég: „Af hverju er ég ekki ofbeldishneigður? Þá myndi ég bara skalla einhvern. Ég á ekki til orð."

Bergur Geirsson úr poppsveitinni Buff, sem er einnig mikill Motörhead-maður, er á sama máli og Aðalbjörn. „Þetta er þessi hræsni sem er í stjórnsýslunni og víðar. ÁTVR myndi leyfa Winston Churchill-koníak þó að hann hafi verið spíttfíkill og drykkjumaður. Ef það kæmi Bítlabjór í ríkið yrði hann örugglega leyfður."

Annar grjótharður Motörhead-aðdáandi er Vésteinn Valgarðsson. „Mér þykir miður að geta ekki keypt mér Motörhead-vín. Mér finnst ástæðurnar sem eru gefnir upp fyrir því hljóma hjákátlega. Þær hljóma eins og geðþóttaákvörðun. Ef við myndum nota sama mælikvarða á allt þá myndu þeir örugglega banna ýmislegt sem þeir leyfa núna. Ég skil ekki af hverju ég ætti ekki að geta keypt mér þetta rauðvín," segir Vésteinn svekktur.

Blaðamaður reyndi einnig að ná tali af Jóa Motörhead, fyrrum trommuleikara Egó, við vinnslu fréttarinnar en ekki náðist í hann.

freyr@frettabladid.is

nordicphotos/afp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.