Innlent

Már í mál við Seðlabanka Íslands

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Már Guðmundsson tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2009. Bankaráð sá um að semja um laun við hann og var niðurstaðan sú að hann fengi tæplega 1.575 þúsund krónur á mánuði.

Í sama mánuði var lögum um kjararáð breytt þannig að valdið til að ákveða laun ýmissa yfirmanna stofnanna og ríkisfyrirtækja, þar á meðal seðlabankastjóra, var fært yfir til kjararáðs. Þá var einnig kveðið á um það í lögunum eftir breytingu að dagvinnulaun yfirmannanna ættu ekki að vera hærri en föst laun forsætisráðherra sem voru 935 þúsund krónur á mánuði.

Í framhaldinu, eða í mars 2010, voru laun seðlabankastjóra lækkuð. Dagvinnulaun hans urðu 862 þúsund krónur á mánuði. Auk þess var ákveðið að greiða honum fasta yfirvinnutíma í hverjum mánuði. Með öllu urðu því launin tæpar 1.266 þúsund krónur og lækkuðu þau því um rúmar 300 þúsund krónur.

Í úrskurði kjararáðs frá því í febrúar 2010 um laun seðlabankastjóra má sjá athugasemdir Más. Þar segist hann hafa kynnt sér starfskjör áður en hann sótti um og að lögum um kjararáð hafi verið breytt eftir að gengið var frá ráðningu hans.

Már hefur nú stefnt Seðlabanka Íslands til að fá launakjör sín leiðrétt þar sem hann telur þau ekki í samræmi við það sem um var samið. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði en frestur til að skila inn greinagerðum rennur út nú í janúar.

Ekki náðist í Má í dag þar sem hann er staddur erlendis. Lára V. Júlíusdóttir formaður bankaráðs Seðlabankans baðst undan viðtali þegar eftir því var leitað og sagði rétt að bíða eftir að dómur félli í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×