Innlent

Margrét Erla Maack fær uppsagnarbréf

Jakob Bjarnar skrifar
Margrét Erla Maack er meðal þeirra sem sagt hefur verið upp störfum en Kastljósþátturinn er nú vængbrotinn.
Margrét Erla Maack er meðal þeirra sem sagt hefur verið upp störfum en Kastljósþátturinn er nú vængbrotinn.
Kastljósið verður fyrir miklu höggi. Margrét Erla Maack bætist í hóp þeirra sem fá uppsagnarbréf.

Ljóst er að Kastljósþátturinn verður vængbrotinn það sem eftir lifir vetrar en þegar hefur komið fram að Jóhannes Kr. Kristjánsson er meðal þeirra sem sagt hefur verið upp störfum. Sigmar Guðmundsson, ritstjóri þáttarins, vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Þeir sem Vísir talar við og starfa á Ríkisútvarpinu tala um svartan dag og ríkir sannkölluð jarðarfararstemmning í húsinu. Margir eru í áfalli en stöðugur straumur fólks er upp á 5. hæð þar sem yfirstjórnin leggur fyrir það uppsagnarbréf.

Vísir hefur þegar greint frá því að Kristófer Svavarsson fréttamaður hefur fengið uppsagnarbréf og leggjast næturfréttir Ríkisútvarpsins við það niður. Nýtt nafn á lista þeirra sem hafa fengið uppsagnarbréf eru Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson á íþróttadeildinni og eru þá einungis tveir fastráðnir eftir á íþróttadeildinni.  Adolfi Inga Erlingssyni var einnig sagt upp störfum. Þá er útvarpsmaðurinn Guðfinnur Sigurvinsson, sem hefur að undanförnu starfað við síðdegisútvarpið, meðal þeirra sem fara og Gunnar Gunnarsson í Speglinum fær starfslokasamning.

Samkvæmt heimildum Vísis stendur fyrir dyrum nokkur niðurskurður á starfsstöðinni á Akureyri en talað er um að uppsagnir verði í heild um 60. Við bætist að tímabundnir samningar, sem eru allnokkrir við þáttagerðarfólk sem tæknimenn, verða ekki endurnýjaðir.

Víst er að Ríkisútvarpið á marga vildarvini því nú þegar hafa tæplega 800 skrifað á undirskriftarlista þar sem uppsögnunum er mótmælt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×