Innlent

Margt bendir til þess að sjúkur brennuvargur sé á ferli

Gísli Óskarsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Brennuvargar ollu milljónatjóni í Vestmannaeyjum í gær þegar kveikt var í síldarnót. Þetta er ein af mörgum óupplýstum íkveikjum í eyjum á undanförnum árum. Bæjarstjórinn segir sjúkan einstakling ganga lausan.

Eldsins varð vart um laust fyrir klukkan tíu í gærkvöld. Allt slökkviliði í Eyjum var sent á vettvang ásamt slökkvibíl flugvallarins. Slökkviliðsmönnum tókst að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í fleiri veiðarfæri eða mannvirki en skaðlegan reyk lagði frá eldinum.

Tjónið er enn óvíst en ný viðlíka nót kostar um það bil fimmtíu milljónir króna. Lögreglan telur fullvíst að um íkveikju sé að ræða. Hún rannsakar nú málið en enginn hefur enn verið yfirheyrður.

Fjöldi bruna í vestmannaeyjum á undanförnum árum eru enn óupplýstir. Frystihús Ísfélagsins brann til grunna árið 2000. Þá hefur verið kveikt í lifrasamfélaginu, fiskimjölsverksmiðjunni, húsi við Hilmisgötu, geymslugámi, fiskiðjunni, ruslagámum í kirkjugarðinum, búnaði á íþróttasvæðinu og fjölda annarra mannvirkja á undanförnum árum. Margir brunar eru enn óupplýstir.

Bæjarstjórinn segir alvarlegt að brennuvargur gangi laus í bænum.

„Því miður bendir margt til þess að þarna sé sjúkur einstaklingur á ferðinni," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.

Til greina komi því að efla eftirlitsmyndavélakerfi bæjarins vegna brennuvargsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×