Innlent

Markaðsátak þegar farið að skila sér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir það vera tilfinningu sína að markaðsátakið sé þegar farið að skila sér. Mynd/ GVA.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir það vera tilfinningu sína að markaðsátakið sé þegar farið að skila sér. Mynd/ GVA.
Vísbendingar eru um að markaðsátakið „Inspired by Iceland" sem unnið er í samvinnu iðnaðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar við aðila ferðaþjónustunnar sé þegar farið að skila árangri, segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Átakið var sett af stað fyrir viku síðan til að vinna gegn neikvæðum áhrifum eldgossins á ferðaþjónustuna á Íslandi. Katrín segir að hluti af átakinu séu reglulegar mælingar á virkni þess. Fyrstu tölur úr mælingum séu ekki komnar en hún vænti þeirra.

Hún bendir á að þegar að ráðist var í átakið hafi enn gosið í Eyjafjallajökli „Við vorum að gera okkur vonir um það að við gætum sýnt fram á það að innviðirnir væru heilir og það væri allt öruggt. Að menn ættu að koma þrátt fyrir gos og jafnvel bara vegna gossins," segir Katrín. Nú sé gosinu lokið í bili og það hjálpi að sú óvissa sem því fylgir sé út úr myndinni í bili. „Það hjálpar okkur í markaðsátakinu að hér sé opið flugið og annað slíkt," segir Katrín.

Katrín telur víst að þetta markaðsátak eigi eftir að vinna til baka eitthvað af þeim bókunum sem hafa dottið niður vegna gossins. „Þetta er búið að vera í gangi núna í viku og ég heyri að bókanir eru að glæðast og ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að heyra meira um það," segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×