Innlent

Marklausar skýrslur notaðar til að hafna kröfum um bætur

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglan sinnti áður árekstrum þar sem ekki verða slys á fólki en ekki lengur. Þjónustan er nú í höndum Aðstoðar og öryggis, fyrirtækis sem á allt sitt undir tryggingafélögunum.
Lögreglan sinnti áður árekstrum þar sem ekki verða slys á fólki en ekki lengur. Þjónustan er nú í höndum Aðstoðar og öryggis, fyrirtækis sem á allt sitt undir tryggingafélögunum. Vísir/vilhelm
Fjögur stærstu tryggingafélög landsins styðjast öll við svokallaðar PC crash-skýrslur til að hafna bótakröfu vegna líkamstjóns eftir árekstur.

Hæstiréttur og héraðsdómar hafa ítrekað vísað gildi skýrslnanna á bug, meðal annars vegna þess að þeirra er aflað einhliða af tryggingarfélögunum. Notkun þeirra hefur þrátt fyrir það ekki verið hætt hjá félögunum.

Þann 19. október síðastliðinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur enn einn dómurinn þar sem meðal annars reyndi á hvort PC crash-skýrsla Sjóvár gilti fyrir dómi.

Þar kom fram að skýrslurnar tvær, PC crash-skýrslan og rannsóknarskýrsla unnin af fyrirtækinu Aðstoð og öryggi, gætu ekki trompað matsgerð læknis um líkams­tjón farþegans sem um ræddi.

Í janúar árið 2014 lagði Tryggingamiðstöðin fram fyrir dómi PC crash-skýrslu, unna af Aðstoð og öryggi, sem sanna átti að sá sem fór fram á bætur eftir slys hefði ekið á ofsahraða.

Í niðurstöðu dómsins segir: „Samkvæmt álitsgerðinni leiddi sú athugun í ljós að hraði bifreiðarinnar hafi verið 120 km/klst. er hún fór út af veginum. Ekki kemur glöggt fram á hvaða forsendum sú niðurstaða er byggð og er það mat dómsins að varhugavert sé að leggja hana til grundvallar sönnun um ökuhraða bifreiðarinnar.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er hætt að sinna minniháttar árekstrum og umferðaróhöppum. Þess í stað er fólki bent á að hafa samband við fyrirtækið Aðstoð og öryggi, en fyrirtækið gengur jafnan undir nafninu árekstur.is.

Á heimasíðu Aðstoðar og öryggis segir að fyrirtækið sé „sérhæft þjónustufyrirtæki sem annist vettvangsrannsóknir umferðaróhappa á hlutlausan hátt.“

Þá segir í kynningarmyndbandi fyrirtækisins: „Þjónustan tryggir réttláta og fljótvirka afgreiðslu tjóna fyrir tryggingarfélög og viðskiptavini þeirra.“

Árekstur.is mætir á vettvang umferðarslyss og aðstoðar við frágang tjónaskýrslu auk þess sem teknar eru myndir af vettvangi og bílnum sem um ræðir. Skýrsla er svo send strax til viðkomandi tryggingarfélags. Þjónustan er tjónþola að kostnaðarlausu vegna þess að það eru tryggingafélögin sem greiða Aðstoð og Öryggi fyrir þjónustuna. Fyrirtækið er þar með í raun viðskiptavinur tryggingarfélaganna, en ekki tjónþola.

Styrmir Gunnarsson, lögmaður
Styrmir Gunnarsson, lögmaður á Landslögum, hefur farið með mál þar sem reynir á gildi skýrslnanna fyrir dóm.

„Það sem er svo mikilvægt að átta sig á er að PC crash-skýrsla er ekki sönnunargagn um það hvort einhver hafi orðið fyrir líkamstjóni við umferðaróhapp eða árekstur. Tryggingarfélögin hafa í mörg ár stuðst við þessa útreikninga í þeim tilgangi að telja fólki trú um að áreksturinn sem það lenti í sé þess eðlis að það geti ekki hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Í ljósi þess hve lengi og mikið félögin nota þessa aðferð er líklegt að þetta sé að skila þeim tilsettum árangri og fólk veigri sér frá því að halda kröfum sínum á lofti. Það kemur ekkert á óvart enda virkar framsetning á þessum gögnum mjög fagmannlega unnin.“

Hann segir mikilvægt að fólk leiti læknis ef það kennir sér meins eftir umferðaróhapp jafnvel þótt áreksturinn hafi verið tiltölulega vægur og ummerki á ökutækjum lítil.

Fréttablaðið leitaðist eftir svörum frá tryggingarfélögunum vegna þessa en án árangurs. 

Hvað eru PC crash-skýrslur?

PC crash er forrit að danskri fyrirmynd sem er ætlað að reikna út höggþunga við slys. Inn í flókna formúluna er meðal annars sett inn þyngd ökutækis, þyngd ökumanna og borið saman sjáanlegt tjón á ökutækjum. Forritið tekur einnig inn í útreikningana ABS hemlakerfi og VSA stöðugleikastýringu ef ökutæki hefur þann búnað.

Þá skiptir máli framburður ökumanna um akstursstefnu og háttalag við akstur. Sá hraði sem ökumaður segist hafa verið á er ekki tekinn til greina, nema hann segist hafa verið kyrrstæður þegar árekstur verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×