Innlent

Með leynivopn á barþjónamót

Höskuldur Kári Schram skrifar
Íslenskur barþjónn sem ætlar að taka þátt í heimsmeistarakeppni barþjóna í Bandaríkjunum hefur hannað sérstaka sjússmæla og kokteilhristara til að ná forskoti á aðra keppendur. Búnaðurinn gerir honum kleift að búa til kokteila á mettíma.

Andri Davíð Pétursson bar sigur úr býtum í World Class barþjónakeppninni hér á landi og verður því fulltrúi Íslands á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Bandaríkjunum í næstu viku.

Fimmtíu og átta barþjónar frá jafnmörgum löndum taka þátt og verður keppt í ýmsum greinum.

„Fyrst og fremt snýst þetta um drykkina. En þetta snýst líka mikið um persónuleika barþjóna. Þetta er í raun og veru barþjónakeppni frekar en keppni um bestu drykkina. Það eru margir þættir sem skipta miklu máli í þessari keppni,“ segir Andri.

Andri hefur á síðustu mánuðum þróað 29 kokteila sem eru meðal annars búnir til úr íslenskum jurtum. Á mótinu verður einnig keppt í hraða en þá fá keppendur tíu mínútur til að búa til fjórtán mismunandi kokteila.

Óhætt er að segja að Andri komi vel undirbúinn til leiks en hann hefur í samstarfi við frænda sinn þróað sérstaka sjússmæla og kokteilhristara til að ná forskoti á aðra keppendur. Búnaðurinn gerir honum kleift að búa til allt að fjóra kokteila í einu.

Hægt verður að fylgjast með keppninni beint hér.

Einnig er hægt að fá nánari upplýsingar á þessum vef hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×