Innlent

Með skýrt umboð til að breyta borginni

Páll Hjaltason, arkitekt, er nýr formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.
Páll Hjaltason, arkitekt, er nýr formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.

Besti flokkurinn er með skýrt umboð til breytinga í Reykjavík og tími kominn til að láta verkin tala, í góðri sátt við íbúa. Þetta má lesa í viðtali blaðsins við nýjan formann skipulagsráðs, Pál Hjaltason.

Stærsta verkefnið verði að endurskilgreina hverfin sem sjálfbær þorp, með allri helstu þjónustu, og bæta fyrir það sem illa hefur farið á síðustu árum.

Nýr meirihluti taki við hlöðnu borði af skipulagsmálum, sem sum séu þannig vaxin að óhjákvæmilegt virðist að borgin þurfi að greiða skaðabætur vegna þeirra.

„Þrátt fyrir þennan arf eru gríðarleg tækifæri framundan," segir Páll: „Breytingar eru skýrt umboð Besta flokksins og við höfum lært mikið af þenslunni."

Hann vill þrengja veg einkabílsins í borginni: „Það hefur sýnt sig erlendis að bílum fjölgar þegar þeim er gefið meira pláss en fólki og mannlífi þegar því er gefið pláss," segir hann. Auka þurfi almenningssamgöngur og skoða hvort ekki megi loka til dæmis Bankastræti fyrir bílaumferð.

Þá vill Páll sameina sveitar-félögin á höfuðborgarsvæðinu og hefur miklar efasemdir um hugsanlega samgöngumiðstöð í Vatnsmýri. Flugvöllurinn á að fara til Keflavíkur, að hans mati. Sekta skuli eigendur húsa í niðurníðslu og Árbæjarsafn skili gömlum húsum í miðbæinn. - kóþ








Fleiri fréttir

Sjá meira


×