Viðskipti innlent

Meðalatvinnuleysi 2,9 prósent í fyrra

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Atvinnuleysi hefur minnkað hratt á undanförnum misserum og var meðalatvinnuleysi í fyrra, 2,9 prósent, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir að háskólamenntaðar konur hafi verið þriðjungur atvinnulausra á árinu. Enn er atvinnuleysi mismikið eftir landshlutum.

Í Hagsjánni segir að eftirspurn eftir vinnuafli hafi aukist í takt við aukna eftirspurn í hagkerfinu. Nú sé rætt um skort á vinnuafli í ákveðnum greinum.

„Þá er sú umræða orðin áleitin aftur að ekki sé hægt að anna vinnuaflseftirspurn á næstu árum með innlendu vinnuafli og því þurfi innflutningur vinnuafls að stóraukast,“ segir í Hagsjánni.

Atvinnuleysi var, í kjölfar hrunsins, hærra á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Þó hafi atvinnumál á Suðurnesjum komist í uppnám fyrr og þá meðal annars vegna brottfarar hersins á Keflavíkurflugvelli.

Á árinu 2010 fór skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum yfir 13 prósent. Á sama tíma fór það upp undir níu prósent á höfuðborgarsvæðinu. Að meðaltali fór atvinnuleysi á landsbyggðinni hæst í tæp sjö prósent árið 2010.

Atvinnuleysi bitnaði lengi vel einkum á ófaglærðu starfsfólki, samkvæmt Hagsjánni, en hefur orðið mikil breyting á því á síðustu árum. Atvinnuleysi hefur hlutfallslega bitnað meira á háskólamenntuðu fólki.

„Á síðustu 10 árum hefur háskólamenntuðu fólki í hópi atvinnulausra fjölgað úr því að vera tíu prósent atvinnulausra upp í 25 prósent.“

Þá hefur háskólamenntuðum konum fjölgað meira en körlum í hópi atvinnulausra. 2006 var hlutur háskólamenntaðra karla tíu prósent og konum tólf prósent. Í fyrra voru hlutföllin 21 prósent og 28 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu voru háskólamenntaðar konur þriðjungur atvinnulausra í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×