Innlent

Meðferð barnaníðinga í íslenskum fangelsum er ábótavant

Meðferð barnaníðinga sem afplána í íslenskum fangelsum er ábótavant. Þetta segir sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun en barnaníðingur sem lauk nýverið afplánun er nú grunaður um að hafa brotið af sér á meðan hann var á reynslulausn.

Fram kom í Kastljósinu í gær að Ágúst Magnússon, sem árið 2004 var dæmdur fyrir brot gegn sex drengjum, sé grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn ungum misþroska manni á meðan Ágúst var enn á reynslulausn

Reynist þetta rétt er þetta áfall fyrir Fangelsismálastofnun sem hafði skikkað Ágúst í stranga meðferð hjá sálfræðingum, geðlæknum og félagsráðgjöfum á reynslulausnartímabilinu af ótta við að hann myndi brjóta af sér aftur.

Anna Kristín Newton, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, sem vinnur með kynferðisafbrotamenn í afplánun segir málið sýna að það sé hægt að gera betur.

Anna segir að sálfræðimeðferð og eftirlit séu bestu leiðirnir til að koma í veg fyrir dæmdir barnaníðingar brjóti aftur af sér.

Vandamálið er bara að einungis helmingur þeirra kynferðisbrotamanna sem koma inn í fangelsi fara í meðferð, of fáir sálfræðingar eru til staðar til að veita barnaníðingum meðferð. Og eftirlitið að afpláunun lokinni er sama sem ekkert.

En þar sem meðferð virðist ekki hafa gert gagn í tilfelli Ágústs er spurning hvort eftirlit hefði borið árangur. Anna segir að í Bretlandi sé fyrirkomulag sem gæti gagnast hér á landi. Þar þurfa menn eins og Ágúst að láta vita af sér reglulega hjá lögreglu.

„Svo eru aðrir einstaklingar á vegum lögreglunnar sem fara endrum og eins og athuga hvort einstaklingar eru þar sem þeir segjast," segir Anna Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×