Innlent

Meirihlutasamstarf í Árborg í uppnámi

Andri Ólafsson skrifar
Selfoss.
Selfoss.
Meirihluti sjálfstæðismanna í Árborg er í uppnámi en einn bæjarfulltrúa þeirra íhugar að ganga til liðs við minnihlutann. Sjálfstæðismenn eru með fimm bæjarfulltrúa af níu og hreinan meirihluta í Árborg. Einn af bæjarfulltrúunum þeirra, Elfa Dögg Þórðardóttir, íhugar hinsvegar alvarlega samkvæmt heimildum fréttastofu að segja skilið við meirihlutann. Hún er að sögn óánægð með nýlega ákvörðun um að Árborg segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands, sem er samtstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurlandi um ýmsa sérþjónustu og ráðgjöf í leik- og grunnskólum.

Í dag náðist hvorki í Elfu Dögg né Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í Árborg. En samkvæmt heimildum fréttastofu funduðu sjálfstæðismenn í gær á heimili Eyþórs um stöðuna. Elfa Dögg var reyndar ekki á þeim fundi. Hún var á öðrum fundi, nánar tiltekið með oddvitum minnihlutans, það er að segja Samfylkingar, VG og Framsóknar.

Einn þeirra sagði í samtali við fréttastofu í morgun að myndum meirihluta hefði ekki verið til umræðu. Það væri enn ekki tímabært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×