Innlent

Mengunarmælirinn á Höfn varð rafmagnslaus í nótt

Fréttablaðið/Gunnþóra
Gasmengunarmælirinn á Höfn í Hornafirði varð rafmagnslaus í nótt og hefur ekki mælt neitt frá því á fjórða tímanum, en gasmengun á Höfn mældist langt yfir hættumörkum í gær og fram eftir kvöldi.

Hún var komin niður í 14 hundruð míkrógrömm á rúmmetra í nótt, þegar rafhlöður mælisins tæmdust, en þær eiga að duga í þrjú ár. Þegar mengun fer yfir 600 míkrógrömm í rúmmetra fer mælirinn að gefa frá sér hljóð, eða píp, og það hafði hann  gert lengi dags í fyrri mengunarhvellum í síðustu viku, þar til ósköpin riðu  yfir í gær og hann pípti stanslaust þar til rafhlöðurnar tæmdust.

Til stendur að fá nýjar rafhlöður í dag. Að sögn Þórhildar Völu Sigursveinsdóttur sjúkraliða á Heilbrigðisstofnuninni, þar sem mælirinn er vistaður, fannst mun minni mengun utandyra undir morgun en í gær, hvað sem mælingum líður.

Lögreglumenn á Höfn mældu 12 hundruð milligrömm í rúmmetra á lausan mæli rétt fyrir klukkan sex í morgun og allt upp í 6,600 míkrógrömm á Mýrum og í Suðursveit og beina Almannavarnir því til foreldra skólabarna að aka þeim í skólann og til skólayfirvalda, að halda börnunum innandyra í frímínútum.

Almannavarnanefnd Hornafjarðar gagnrýndi í síðustu viku ástand mælisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×