Skoðun

Menntun má tæta

Brynja Dís Björnsdóttir skrifar
Tilraunir sveitarfélaga til að treysta fjárhagsstöðu sína og draga úr útgjöldum hafa falist í fækkun skóla, sameiningu skóla, niðurskurði til skólamála, myndun nýrra skóla með samfléttingu á grunn-, leik- og tónskólum og fækkun starfsfólks í grunnskólum landsins. Skólarnir hafa þurft að taka á sig stærstan hluta þess niðurskurðar sem sveitarfélögin hafa stýrt. Nú er komið að sársaukamörkum, sveitarfélögum landsins mun verða ljóst að skólarnir geta naumast starfað með þann litla stuðning sem þau fá frá sveitarfélögunum.

Forsenda skólastarfs verður og er alltaf starfsfólkið og á því hvílir mikil ábyrgð nú þegar sveitarfélögin hafa svelt skólana nær viðstöðulaust í fjögur ár. Fjármagn til skólamála þarf að aukast verulega svo skólarnir nái að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum og kröfum samfélagsins í dag til skólanna. Smám saman mun skólastarfið og starfsfólk skólanna snúa vörn í sókn. Reiði fólksins mun ná hámarki vegna þess ömurlega hugarfars sem sveitarfélög hafa gagnvart skólum, nemendum og menntun þeirra.

Von skóla í dag er tormelt því sveitarfélögin eru ekki hætt niðurskurði, þau finna sífellt nýjar og sársaukafyllri leiðir til að ná fram sætum hagnaði í fjárhagsuppgjöri mánaðarins.

Nú geta skólarnir ekki tekið á sig meiri niðurskurð og sveitarfélög landsins verða að finna leiðir til að fjármagna skólastarfið og smám saman styrkja menntun í samfélaginu.

Ýmislegt neikvætt hefur verið sagt um ungmenni okkar og æsku landsins. Þessi umræða hefur oftar en ekki komið frá menntafólki sem sakar skólana um ófaglegt starf, getuleysi og vanhæft starfsfólk. Skólafólk er orðið langþreytt á fjandskap háskólamenntaðs fólks á störfum þeirra og skólastarfi í landinu. Umræða um skólana í landinu þarf að vera uppbyggileg og fordómalaus. Menntað háskólafólk á ekki að leyfa sér niðurrif grunnskólastarfs með orðum sínum og athöfnum vegna sinnuleysis sveitarfélaga.

Umræðan nú í dag þarf að beinast að hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga gagnvart menntun barnanna okkar. Sveitarfélög taka ómarkviss og vanhugsuð niðurskurðarskref undir gáleysislegu skjalli menntamannanna og háskólasamfélagsins.

Margt verður að breytast og það verður að setja fjármagn í menntun barnanna okkar.

Það verður að gera skólana mikilvæga og sjá til þess að þeir geti uppfyllt kröfur nútímasamfélags um menntun.




Skoðun

Sjá meira


×