Viðskipti innlent

Metro-maður ákærður fyrir undanskot

Stígur Helgason skrifar
Rekstur hamborgarastaðarins Metro hefur í tvígang verið færður í ný félög og þau fyrri farið í þrot. Hér er Jón Garðar með McDonald's-borgara og fleira.
Rekstur hamborgarastaðarins Metro hefur í tvígang verið færður í ný félög og þau fyrri farið í þrot. Hér er Jón Garðar með McDonald's-borgara og fleira. Fréttablaðið/GVA
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Jóni Garðari Ögmundssyni fyrir skattsvik í rekstri Lystar ehf., sem var móðurfyrirtæki McDonald‘s á Íslandi og síðar hamborgarastaðarins Metro.

Samkvæmt ákæruskjalinu hélt Jón Garðar eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna árin 2009 og 2010 en stóð hins vegar ekki skil á þeim til ríkisins. Alls námu greiðslurnar sem aldrei skiluðu sér rúmum 22,5 milljónum fyrir mánuðina apríl, nóvember og desember 2009 og svo janúar til maí 2010.

Í fyrsttalda mánuðinum voru McDonald‘s-staðirnir reknir undir hatti Lystar en Metro frá því í nóvember 2009.

Rekstur Metro var seldur frá Lyst yfir til félagsins Lífs og heilsu ehf. í júní 2010 og skömmu síðar fór Lyst í gjaldþrot. Lítið fékkst upp í kröfur. Reksturinn var svo enn seldur frá Lífi og heilsu til félagsins M-Veitinga ehf. haustið 2012. Um síðustu áramót varð Líf og heilsa svo gjaldþrota.

Sérstakur saksóknari hefur haft fleiri anga þessa rekstrar til rannsóknar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, en það hefur ekki leitt til ákæru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×