Lífið

Mikill heiður fyrir OMAM

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Of Monsters And Men eiga lag í The Hunger Games 2.
Hljómsveitin Of Monsters And Men eiga lag í The Hunger Games 2. NORDICPHOTOS/GETTY
„Okkur var bara boðið að gera þetta og okkur þótti þetta mjög spennandi,“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona hljómsveitarinnar Of Monsters And Men. Nýtt lag sveitarinnar, Silhouettes, mun hljóma í kvikmyndinni The Hunger Games: Catching Fire sem frumsýnd verður á Íslandi í nóvember.

„Við tókum lagið upp í stúdíói í Tennessee í Bandaríkjunum þegar við vorum þar í sumar og aðstandendur myndarinnar voru mjög hrifnir af því. Þetta er mikill heiður fyrir okkur og ein af mínum uppáhalds hljómsveitum, The National, er einmitt líka með lag í myndinni, ásamt Coldplay,“ segir Nanna Bryndís.

Upptökustjórinn Jacquire King rekur hljóðverið sem lagið var tekið upp í, en hann var einnig upptökustjóri á bandarísku útgáfu plötunnar My Head Is an Animal, sem er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar. Meðlimir Of Monsters and Men eru í fríi um þessar mundir eftir langt og strangt tónleikaferðalag um heiminn.

„Við erum í fríi núna og erum í raun öll í sitt hvoru horninu. Það var kominn tími á smá pásu. Það er skrítið þurfa ekki að fara eftir einhverju plani alla daga og allt einu getur maður fengið að sofa út,“ segir Nanna Bryndís.

Ekki hefur verið ákveðið hvort Silhouettes verði á næstu plötu sveitarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.