Innlent

Mikilvægt að tryggja jöfnun lífeyrisréttinda

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála-og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála-og efnahagsráðherra. Vísir/Anton Brink
Fjármálaráðherra segir grafalvarlegt að ekki hafi tekist að jafna lífeyrisréttindi milli vinnumarkaða í samræmi við Salek samkomulagið. Það sé óréttlátt að skattgreiðendum sé gert að tryggja óskert réttindi opinberra starfsmanna á meðan þeir sjálfir þurfi að þola skerðingar.

Ekki náðist samkomulag á Alþingi um að frumvarp fjármálaráðherra um jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnuamarkaði. Frumvarpið byggði á nýgerðu samkomulagi en nokkur félög opinberra starfsmanna gagnrýndu það harðlega.

Jöfnun lífeyrisréttinda er hluti af Salek-samstarfinu svokallaða og þegar það lá fyrir að Alþingi myndi ekki afgreiða frumvarpið ákváðu aðilar vinnumarkaðarins nú í vikunni að setja samstarfið á ís.

Fjármálaráðherra segist skilja þá ákvörðun.

„En þetta er ekki bara alvarlegt mál út af Salek viðræðunum. Þetta er líka alvarlegt mál út af afleiðingunum sem að við blasa. Nú hafa stjórnir LSR og Brúar báðar boðað miklar iðgjaldahækkun um áramótin sem að þýðir að við erum að fjarlægast markmiðið. Við erum að fjarlægjast það. Eftir að almenni markaðurinn hækkaði upp í 15,5 þá erum við að fjarlægjast það ef það gerist um áramótin,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Bjarni segir að það hljóti að vera forgangsmál nýrrar ríkisstórnar að koma Salek viðræðum aftur af stað enda sé það bæði vilji ríkis og sveitarfélaga að standa við samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda.

„Mér finnst það ósanngjarnt að hinn almenni skattgreiðandi hér á landi þurfi bæði að þola skerðingar ef illa gengur í efnahagsmálum hjá okkur og lífeyrisréttindi hans skerðast af þeim sökum en hann þurfi á sama tíma að sjá eftir sköttum sínum til að tryggja óskert réttindi opinberra starsfmanna. Þetta er ekki sanngjarnt,“ segir Bjarni.

„Þess vegna höfum við verið að vinna að því að jafna réttindi milli markaða. Síðan verðum við líka að horfa á þetta í stærra samhengi. Við erum nú þegar komin með 500 milljarða loforð í B-deild LSR sem er algjörlega ófjármagnað. Þetta eru útgreiðslur sem við höfum lofað í framtíðinni, fólki inni í B-deildinni, sem við eigum eftir að sjá fram á hvernig við ætlum að standa við. Svona loforð sem eru skrifuð inn á kynslóðir framtíðarinnar verðum við að fara að hætta að gefa,“ segir Bjarni. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×