Innlent

Miklu fleiri börn leita hælis í ár en árin á undan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bragi Guðbrandsson er forstjóri Barnaverndastofu.
Bragi Guðbrandsson er forstjóri Barnaverndastofu.
Mun fleiri börn hafa leitað hælis á Íslandi í ár en árin á undan, segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu. Á árunum 2007 - 2011 komu alls 7 börn til landsins. Það sem af er árinu 2012 hafa komið fimm börn. „Það virðist vera stórfelld aukning á þessu ári í fjölda barna sem leita hælis hér. Á árabilinu 2007 - 2011 voru þetta samtals sjö einstaklingar yngri en 18 ára sem leita hælis. En á þessu ári eru þau orðin fimm nú þegar," segir Bragi. Að vísu hafi orðið veruleg fjölgun fullorðinna sem leiti hælis hér líka.

Yngri drengurinn sem handtekinn var við komuna til landsins í lok apríl, sem ólöglegur flóttamaður, er á fósturheimili. Sá eldri er á Fit, en það er heimili fyrir flóttamenn. Komið hefur fram að tveir drengir, fimmtán og sautján ára gamlir, hefðu verið handteknir og þeir dæmdir í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi. Fyrir tilstuðlan Fangelsismálastofnunar og Barnaverndastofu varð ekki úr því að börnin afplánuðu í fangelsi heldur var þeim fundin fyrrgreind úrræði. Til skoðunar er hvort áfrýja eigi dómnum til Hæstaréttar.

Bragi segir umræddan dóm yfir drengjunum vera alveg makalausan. „Þetta er eitthvað sem ég hef ekki vitað til að hafi áður gerst að börn sem leita hælis hér á Íslandi hljóti óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir það eitt að framvísa fölsuðum skilríkjum. Það hefur mér vitanlega verið ákært í slíkum málum áður en aldrei verið um dóm í fangelsi áður," segir Bragi.

Bragi kallar eftir því að fram fari umræða hér á landi um stöðu barna sem leita til landsins sem hælisleitendur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×