Viðskipti innlent

Milljarða samningur við norska og sænska herinn

Forsvarsmenn íslenska fyrirtækisins Arctic Trucks skrifuðu í morgun undir fjögurra ára rammasamning við norska og sænska herinn, með möguleika á framlengingu til næstu tíu ára. Um er að ræða framleiðslu á jeppum frá fyrirtækinu.

Samningurinn felur einnig í sér heildarlausnir varðandi ökutækin, þar með talda þjálfun ökumanna, viðhaldsþjónustu, viðgerðir og varahluti.

Arctic Trucks tók þátt í útboði á verkinu, og varð niðurstaðan ljós í morgun.

„Við erum afar stolt af því að fá þetta verkefni," segir Örn Thomsen framkvæmdarstjóri Arctic Trucks í Noregi. Hann segir samkeppnina á þessum markaði mikla og því sé það stór áfangi að undirrita slíkan samning.

Fyrirtækið býr yfir 20 ára reynslu í að breyta bílum hvort sem er fyrir akstur í eyðimörk eða á norðurslóðum.

Um tvo breytta bíla er að ræða. Báðir eru þeir frá Toyota, annarsvegar Land Cruiser 200 og hisnvegar Hilux 6x6 sem hafa verið þróaðir af fyrirtækinu.

Fyrsta pöntunin sem fyrirtækið afgreiðir eru 53 brynvörð ökutæki, en samningurinn hljóðar upp á 130 milljónir norskra króna, eða tæpan tvo og hálfan milljarð íslenskra króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×