Innlent

Tilkynnt um minnst tvö kynferðisbrot á Þjóðhátíð

Jakob Bjarnar og Jóhann Óli Eiðsson skrifa
Bæði tilfellin áttu sér stað í Herjólfsdal.
Bæði tilfellin áttu sér stað í Herjólfsdal. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Minnst tvö kynferðisbrot hafa verið tilkynnt á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Í öðru málanna var síðar gengið í skrokk á meintum geranda og hann fluttur úr Herjólfsdal á börum og sendur með sjúkraflugi á Landsspítalann. Þetta hefur Vísir eftir áreiðanlegum heimildum og eru allmörg vitni að því.

Þetta mun hafa verið á laugardagskvöldinu og átti atvikið sér stað í Dalnum. Í nótt var svo í það minnsta eitt tilvik sem var tilkynnt og kom það mál til kasta heilsugæslustöðvarinnar í Eyjum. Það mál mun einnig hafa komið upp í Herjólfsdal.

Ómögulegt hefur reynst að fá þessi tilvik staðfest frá þar til bærum yfirvöldum vegna yfirlýstrar stefnu Páleyjar Borgþórsdóttur lögreglustjórans í Vestmannaeyjum; en hún gaf út fyrir hátíðina að lögreglan í Vestmannaeyjum myndi ekki tjá sig um atvik af þessu tagi. Að auki tjáði neyðarmóttaka Landspítalans fyrir þolendur kynferðisbrota sig ekki um það hvort brot hefði komið inn á þeirra borð frá Vestmannaeyjum.

Stefna embættisins í ár er sú sama og í fyrra. Málið vakti upp mikil viðbrögð þá og gerði það einnig nú. Mikla athygli vakti þegar hópur tónlistarmanna tilkynnti að þeir myndu ekki koma fram á Þjóðhátíð í Eyjum í ár nema stefnubreyting yrði í þeim efnum, og að samræmd yrði upplýsingagjöf frá lögregluembættunum. Eftir fund með Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Eyjum sendu þeir frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir kæmu fram ef svo yrði. Áður hefur verið sagt frá því að minnst fjögur kynferðisbrot hafi átt sér stað um helgina, þar af þrjú í Reykjavík.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum kemur fram að nóttin hafi verið róleg framan af en þegar tók að síga á síðari hluta hennar hafi þurft að sinna mörgum útköllum. Alls gistu fimm fangageymslur vegna ýmissa mála. Þrjár líkamsárásir voru kærðar í gær en þar af er ein alvarleg. Alls voru þrettán líkamsárásir kærðar á hátíðinni. Í einu tilviki var um að ræða heimilisofbeldi en tvær líkamsárásir töldust alvarlegar.

Níu fíkniefnamál komu upp í gær í Eyjum samanborið við fimmtán í fyrrakvöld. Haldlögð efni í gær voru amfetamín, kókaín, kannabis og E-töflur. Um neysluskammta er að ræða. Lögreglan telur að fimmtánþúsund gestir hafi heimsótt hátíðina þegar mest var.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×