Skoðun

Mótum betri samskiptaleiðir

Toshiki Toma skrifar
Reykjavíkurborg heldur fjölmenningarþing í annað skipti nú í nóvember og er undirbúningur þess í gangi. Umræðuefnin sem fjölmenningarþingið á að taka fyrir virðast vera margvísleg, eins og t.d. samræmi milli stefnu sveitarfélaga og ríkis, þjónusta ríkisstofnana, upplýsingamiðlun til og meðal innflytjenda, atvinna og menntun o.fl. Það er svo auðvitað frábært að ræðuefni verða einnig valin eftir óskum innflytjenda sjálfra. En valið er ekki svo auðvelt.

Það er fyrst og fremst í höndum skipuleggjenda þingsins sem sjá um að kynna fyrir innflytjendum áætlun þingsins og biðja um þeirra skoðun á ræðuefni.

Til hverra eiga skipuleggjendur að senda erindi og á hvaða tungumáli? Síðan kemur annað mál sem er erfitt. Hvernig geta innflytjendur komið því sem þeir hafa í huga til skipuleggjenda? Það snýst ekki aðeins um atriði eins og tungumál heldur einnig þau sem lúta að innri hvötum og vilja okkar innflytjenda.

Það virðist vera meiri fjarlægð í samskiptum milli borgarstjórnar og/eða ríkisstjórnar en sem nemur raunverulegri fjarlægð innflytjenda.

Mér finnst að við – stjórn ríkis og sveitarfélaga og innflytjendur – eigum að horfast í augu við að við þurfum að móta samskiptaleiðir á milli okkar. Af reynslu minni sem prestur innflytjenda hefur þetta verið vandamál alla tíð undanfarinn áratug. Annars vegar getur meirihluti innflytjenda ekki skilið hvað stjórnvöld vilja gera fyrir innflytjendur og hins vegar geta stjórnvöld ekki vitað hvað innflytjendur hugsa og hvers þeir óska. Nú blasir það við að þetta er vandamál sem við komumst ekki yfir án sérstaks átaks. Þá er bara spurningin hvenær og hvernig eigum við að finna betri leiðir fyrir samskiptin?

Mér finnst það vera áríðandi á verkefnaskrá innflytjendamála að stofna fasta leið til þess að samskiptin séu nægileg, sérstaklega fyrir innflytjendur. Ég trúi því raunar að mörg vandamál sem myndast stundum í kringum innflytjendur myndu leysast með því að tryggja samskiptin á milli stjórnar og innflytjenda.

Ég get því miður ekki komið með góða tillögu um hvernig við eigum að móta netkerfið en það hlýtur að vera samvinnuverkefni. Eitt sem er ómissandi í verkefninu er að virkja innflytjendur og stöðuga þátttöku okkar innflytjenda sjálfra enda varðar þetta okkur sjálf.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×