Á landsfundi eru allir gjaldgengir til formanns þótt eðli máli samkvæmt sé hefð fyrir því að kosið sé á milli þeirra sem boðið hafa fram krafta sína. Anna Pála, sem er fyrrum formaður ungra jafnaðarmanna, segir á Facebook að hún hafi ekki kosið sjálfa sig.
„Það voru tveir flottir kandídatar í alvöru-framboði í þessum kosningum. Í framhaldinu stöndum við síðan öll saman um það sem sameinar okkur - jafnaðarstefnuna.“
Reikna má með því að Anna Pála hafi greitt Sigríði Ingibjörgu atkvæði sitt en hún hafði að því er Eyjan greinir frá fyrr í dag lýst yfir stuðningi við Sigríði Ingibjörgu. Ekki þarf að vera mjög talnaglöggur til að átta sig á því að hefði sá er greiddi Önnu Pálu atkvæði sitt kosið Sigríði Ingibjörgu hefðu atkvæði skipst jafnt 242 - 242.
Í ummælum við opna Fésbókarfærslu Önnu Pálu minnir Anna Kristjánsdóttir hana meðal annars á að hún sé framtíðin í Samfylkingunni. Bróðir hennar, Sindri Sverrisson íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, slær á létta strengi og bendir á hve afgerandi tap hennar sé. „Gengur betur næst,“ segir Sindri léttur.