Innlent

Munnmök ástæða aukningar krabbameins í munni

Karen Kjartansdóttir skrifar
Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur.
Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur.
Munnmök eru talin orsök þess að tíðni krabbameins í munni og hálsi er orðið helmingi algengara en fyrir um 20 árum. Faraldsfræðingur segir veiru sem getur orsakað krabbameinið hafa smitast mjög víða hér á landi enda eigi Íslendingar yfirleitt fleiri rekkjunauta en gengur og gerist í öðrum löndum.

Kynfæravörtur eru einn algengasti kynsjúkdómur í heiminum í dag, en talið er að um 80 prósent þeirra sem stunda kynlíf hafi einhver tímann smitast af kynfæravörtusýkingu. Aðeins lítill hluti þessa fólks fær þó vörtur sem sjást með berum augum.

Veirurnar sem valda svo þessum vörtum eru kallaðar HPV-veirur og eru ítrekaðar sýkingar talin helsta orsök leghálskrabbameins. Veiran smitast aðallega við samfarir en geta einnig smitast við munnmök. Síðarnefnda smitleiðin hefur reyndar mjög lítið verið rædd. Í heimildamynd frá Breska ríkissjónvarpinu, BBC, sem breska blaðið Guardian, fjallar um í dag, er málið reyndar kallað eitt af síðustu tabúum kynlífsins.

Þar er einnig greint frá nýrri breskri rannsókn sem sýnir að að tíðni krabbameins í munni og hálsi hefur aukist um helming meðal ungra breskra karlmanna. Segja sérfræðingar Krabbameinsfélag Bretlands faraldur í uppsiglingu. Aukning er einnig meðal kvenna, en ekki nærri jafn mikil.

Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur, segir að enn hafi ekki orðið vart við aukningu á krabbameini í munni hér á landi. Hún segir þó að HPV veiran sé mjög útbreidd hér á landi. Stór rannsókn sem gerð var á Norðurlöndum hafi sýnt sláandi niðurstöður.

„Við vorum mjög leið að sjá það að á Íslandi er langhæst tíðni af kynfæravörtusmiti hjá ungum konunum, ekki eldri konum en þar var tíðnin lægst. Það er greinilegt að þetta smit hefur verið aukast jafnt og þétt hjá yngri fólki," segir Laufey. Fjöldi rekkjunauta skiptir mestu máli í því samhengi.

En hvað er hægt að gera til að reyna stemma stigu við þessari þróun? „Líkurnar fara algjörlega eftir því hvað maður sefur hjá mörgum og þær eru mjög miklar ef maður sefur hjá einhverjum sem er komin með þetta smit. Það sem maður getur fyrst og fremst gert er náttúrulega að sofa ekki hjá mörgum og velja vel vegna þess að það fer líka eftir því hversu hjá mörgum sem maður hefur sefur hjá hefur sofið hjá," segir Laufey.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×