Innlent

Myndir sýna nýja öskurák við gíginn

Myndir af toppgíg Eyjafjallajökuls, sem virðast sýna að ný aska hafi komið úr gígnum og fallið á jökulinn, hafa vakið forvitni jarðvísindamanna. Þeir vilja þó ekki skýra fyrirbærið með því að eldvirkni sé enn í gangi.

Þessar myndir tók kvikmyndatökumaður Stöðvar 2 um miðjan september úr flugvél yfir eldstöðinni en þær sýna nýja dökka öskurák sem virðist hafa borist úr gígnum og fallið á jökulinn. Sú spurning vaknar því hvort eldstöðin sé enn að senda frá sér öskustróka.

Ljósmyndir sem Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur tók 6. júní virðast sýna sama fyrirbæri; dökka ösku að berast upp úr vesturhluta gígsins samhliða gufustrókum.

Björn Oddsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands telur þó ólíklegt að askan hafi komið upp vegna eldvirkni enda hafi engin virkni sést í fjallinu síðustu mánuði. Fremur megi skýra fyrirbærið með gufuvirkni. Fín aska sem liggi við gufuaugu í botni gígsins, mettist gufubólstrum og berist upp með vatnsgufu, vegna hita og uppstreymis.

Þá geti öskurákin sem þessar myndir sýna einnig skýrst með því að aska hafi hreinlega fokið upp úr gígnum undan vindi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×