Skoðun

Myndlist – vannýtt auðlind

Hlynur Helgason skrifar
Stofnaður var sérstakur myndlistarsjóður með lögum árið 2012 sem hefur það markmið að auðvelda þeim sem vinna við myndlist að koma metnaðarfullum verkefnum í framkvæmd. Fé úr sjóðnum hefur eflt sýnileika myndlistar á Íslandi og styrkt stoðir menningarlífsins. Niðurskurður á fjárveitingum í sjóðinn ógnar því góða starfi sem þar hefur unnist.

Rannsóknir benda til þess að myndlist geti haft margþætt jákvæð áhrif á efnahagslífið. Öflug myndlist eykur framleiðni og tekjur hjá þeim sem vinna með beinum hætti við myndlist. Myndlist sem er sýnileg hefur jákvæð áhrif á menningartengda ferðamennsku, sem skilar þjóðarbúinu hvað mestum tekjum. Myndlist er einnig hvati fyrir fjölbreyttara menningarlíf sem laðar að sér hæft og vel menntað fólk, eins og til dæmis lækna.

Við stöndum okkur bærilega í því að styrkja kjarna myndlistarlífsins með listamannalaunum. Hins vegar skortir verulega leiðir til að koma starfi myndlistarmanna á framfæri. Sýnileiki listarinnar hér á landi gæti verið mun meiri og þar með menningarleg áhrif hennar. Þess vegna er myndlist hér á landi vannýtt auðlind; við nýtum ekki efnahagslega möguleika hennar nema að litlu leyti.

Stofnun myndlistarsjóðs fyrir þremur árum var þess vegna skynsamleg og hagkvæm aðgerð. Stefnt var að því að efla hann smátt og smátt með auknum fjárveitingum og auka þannig þjóðhagslegt gildi myndlistarstarfs til muna.

Það er því áhyggjuefni að í stað þess að styrkja sjóðinn hefur Alþingi skert fjárveitingar til hans verulega. Á síðasta ári drógust fjárveitingar saman úr 45 milljónum í 25 milljónir. Nú er lagt til að leggja einungis 15 milljónir til sjóðsins. Í stað þess að bæta hóflegu fé í sjóðinn, og efla þannig efnahagslegt gildi myndlistar, er grafið undan starfinu. Þannig verður myndlistin, því miður, áfram vannýtt auðlind.




Skoðun

Sjá meira


×