Skoðun

Nakin á netinu – Myndir

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Guðberg K. Jónsson skrifar
Veistu hver Audrie Pott var? En Amanda Todd? Hvað með Hope Witsell? Þær voru heilbrigðir unglingar sem áttu framtíðina fyrir sér, þangað til nektarmyndir af þeim fóru í dreifingu á netinu gegn vilja þeirra. Þessu fylgdi niðurlæging, mannorðsmissir og vægðarlaust einelti sem olli því að þær fyrirfóru sér. Sú elsta var fimmtán ára þegar hún lést, sú yngsta þrettán.

Þótt áðurnefndar stúlkur hafi verið erlendar er vandinn það ekki. Á síðasta ári biðlaði íslensk móðir til foreldra í sama bæjarfélagi að eyða nektarmynd af þrettán ára dóttur hennar úr símum og tölvum barna sinna. Óprúttnir aðilar dreifa nektarmyndum af íslenskum börnum, allt niður í tólf ára gömlum, á netinu. Lögreglan er vanmáttug eins og fram kom í ummælum yfirlögregluþjóns lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Fréttablaðinu 8. september: „Við getum ekki stjórnað internetinu.“

Kynþroskanum fylgir forvitni um kynferðismál og unglingum er eðlislægt að gera tilraunir með sjálfsmynd sína, þar á meðal kynverundina. Ný tækni gefur þeim önnur tækifæri en fyrri kynslóðum bauðst. Sumir hrista höfuðið og finnst fólk sem tekur af sér nektarmyndir geta sjálfu sér um kennt ef þær enda á netinu. Hér ber að staldra við áður en skuldinni er skellt á brotaþolann. Fæstir ætla sér að berhátta sig fyrir alheiminn. Þó gætu það orðið örlög margra sem ætluðu sér það ekki – ekki síst ef forvörnum er ábótavant. Nýleg bandarísk rannsókn sýnir að meirihluti unglinga tekur þátt í sexting (að senda og móttaka kynferðisleg smáskilaboð, oft nektarmyndir). Þótt slíkar sendingar útheimti trúnað er þetta mikið hættuspil, því rannsóknin sýndi líka að 26% áframsendi skilaboðin á þriðja aðila.

Það er rétt hjá yfirlögregluþjóninum, við getum ekki stjórnað netinu. Við getum hinsvegar haldið uppi öflugri fræðslu fyrir börn og foreldra um virðingu og ábyrga hegðun á tímum snjallsíma, leitarvéla og klámvæðingar. Undirrituð bjóða upp á slíka fræðslu í vetur. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu SAFT verkefnisins, saft.is/fraedsla.




Skoðun

Sjá meira


×