Innlent

Netsíur ólíklegar til árangurs gegn klámi

Þorgils Jónsson skrifar
Þröstur Jónasson hjá Félagi um stafrænt frelsi segir netsíur gegn klámi líklegri til að verða til ógagns en árangurs.
Þröstur Jónasson hjá Félagi um stafrænt frelsi segir netsíur gegn klámi líklegri til að verða til ógagns en árangurs.
„Tækniútfærslan bak við netsíur sem þessar er illframkvæmanleg," segir Þröstur Jónasson hjá Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi, spurður út í hugmyndir Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um aðgerðir og lagasetningu til höfuðs klámvæðingu.

Þær fela meðal annars í sér möguleg úrræði til að knýja netþjónustufyrirtæki til að loka á dreifingu á klámefni.

Þröstur segir að til þess að stöðva dreifingu kláms þurfi allt efni að fara í gegnum síu.

„Þá er maður kominn með hóp af fólki sem hefur það að starfi að fylgjast með netumferð annarra og ákveða hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Það eykur hættuna á að öðru en klámi verði bætt á listann og lokað verði á löglegt og þarft efni."

Slíkar aðgerðir eru auk þess gagnslitlar, að sögn Þrastar, því að þeir sem á annað borð vilji nálgast klámefni finni alltaf sínar leiðir.

„Þetta kemur á endanum niður á frjálsu flæði upplýsinga, án þess að skila tilætluðum árangri, og hagsmunirnir sem eru í húfi eru meiri en að svo megi fara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×