Erlent

Neyðarsjóður ESB styrkir markaðina

Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála innan Evrópusambandsins, kynnti nýjan neyðarsjóð á fundi með fjölmiðlafólki í Brussel í Belgíu í gær.
Fréttablaðið/AP
Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála innan Evrópusambandsins, kynnti nýjan neyðarsjóð á fundi með fjölmiðlafólki í Brussel í Belgíu í gær. Fréttablaðið/AP
Evrópskar hlutabréfavísitölur hækkuðu mikið í gær eftir að Evrópusambandið tilkynnti að stofnaður yrði neyðarsjóður til að koma í veg fyrir að fjárhagsvandi Grikklands breiddi úr sér til annarra landa sambandsins.

Aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) hafa samþykkt að leggja 750 milljarða evra, jafnvirði ríflega 123 þúsund milljarða íslenskra króna, í neyðarsjóðinn. Aðildarríki munu geta fengið lán úr sjóðnum til að koma í veg fyrir að þau lendi í svipuðum skuldavanda og Grikkir.

Evrópski Seðlabankinn mun einnig hefja mikil uppkaup á skuldum aðildarríkja ESB og einka­aðila til að halda mörkuðum stöðugum og lækka kostnað við lántökur. Bandaríski seðlabankinn mun styðja við aðgerðirnar með því að setja aftur í gang gjaldmiðlaskiptasamninga við Evrópska seðlabankann.

Fréttir af neyðarsjóðnum höfðu strax mikil áhrif á gengi evrunnar og á hlutabréfavísitölur í Evrópu. Met var slegið í Madríd á Spáni þar sem hlutabréfavísitalan hækkaði um 14,43 prósent, sem er mesta hækkun þar á einum degi. Í Lissabon í Portúgal hækkaði hlutabréfavísitalan um 10,73 prósent. Það er einnig methækkun.

Hækkunin á Spáni og í Portúgal kemur í kjölfar ótta við að löndin fari sömu leið og Grikkland, og þykir benda til þess að traust á fjármálakerfi landanna hafi aukist vegna neyðarsjóðsins.

Aðrar evrópskar vísitölur hækkuðu einnig umtalsvert. Í París hækkuðu hlutabréf um 9,66 prósent, og FTSE-vísitalan í London hækkaði um 5,16 prósent.

Sérfræðingar í fjármálamörkuðum telja að aðgerðir ESB-ríkjanna slökkvi að mestu þá elda sem erfitt ástand á Grikklandi hafi kveikt. Þeir benda þó á að til lengri tíma skapi það veikleika þegar skuldir ríkja sem eyði um efni fram lendi á endanum á herðum ábyrgðarfyllri ríkja. Þá skorti reglur til að koma í veg fyrir að vandamálið komi aftur upp síðar.

brjann@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×