Innlent

Neysla neftóbaks aukist um 50%

Þrír starfsmenn í litlum skúr við Stuðlaháls sjá um að tappa á 25 tonn af neftbóki á ári hverju, en neysla á íslensku neftbóki hefur aukist um fimmtíu prósent á aðeins þremur árum.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um tóbaksvarnir þar sem tekið er upp nýtt ákvæði þar sem segir að bannað verði að flytja inn, framleiða og selja allt bragð- og lytkarblandað reyklaust tóbak. Þetta þótti ekki nægilega skýrt í lögunum og er frumvarpið til að bregðast við tilraunum á innflutningi á bragðbættu munntóbaki.

Á Íslandi hefur verið bannað með lögum að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og munntóbak frá því að ESB-tilskipun sem gerði aðildarríkjum ESB og EES-ríkjunum skylt að banna munntóbak var leidd í lög hér 1. febrúar 1997.

ÁTVR framleiðir hins vegar grófkornótt neftóbak í miklum mæli en það nýtur vaxandi vinsælda meðal ungmenna sem troða því í vörina. Framleiðslan hefur nú aukist um fimmtíu prósent á aðeins þremur árum, úr 16,8 tonnum í 25,5 tonn árið 2010. Framleiðslan fer öll fram í húsakynnum ÁTVR við Stuðlaháls í Reykjavík og öll áfylling á tóbakshornum og tóbaksdósum er í litlu húsi við Stuðlaháls þar sem hún er í höndum þriggja starfsmanna.

Svenn Víkingur Árnason, framkvæmdastjóri vörudreifingar og heildsölu tóbaks hjá ÁTVR, segir að grunnhráefnið í neftóbakið, hrátóbakið sem sé í raun möluð tóbakslauf komi frá Svíþjóð. Þetta er uppistaðan í íslenska „ruddanum".

Þó innflutningur á sænsku fínkornóttu tóbaki sé bannaður er hið íslenska að uppistöðu til alveg eins, hráefnið kemur frá Swedish Match í Svíþjóð sem framleiðir snúsið svokallaða sem er bannað hér á landi. Hið íslenska er líka alveg jafn hættulegt og hið sænska en í því eru krabbameinsvaldandi efni.

Eini munurinn á þessu og því sem notað er í sænska snúsið er kornastærðin. Kornið sem notað er í íslenska tóbakið er grófara. Hrátóbakið er blandað með vatni, pottösku, ammoníaki og salti og síðan geymt í eikartunnum í sjö mánuði. Að svo búnu er það flutt í litla skúrinn þar sem starfsmennirnir þrír fylla á dósir og horn. Eins og sést er þetta nokkur handavinna. Eitt horn í einu og ein dós í einu áður en þessu er raðað í kassa og sent í verslanir. Og tuttugu og fimm og hálft tonn rata í nasirnar og undir efri vörina hjá íslenskum tóbaksneytendum á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×