Innlent

Neytendastofa setur sölubann á Latabæjarhjálma

Hjálmarnir eru með myndum af Sollu Stirðu og Íþróttaálfinum.
Hjálmarnir eru með myndum af Sollu Stirðu og Íþróttaálfinum.
Neytendastofa hefur lagt bann á sölu hlífðarhjálma sem seldir eru undir vöruheiti Latabæjar. Hjálmarnir eru af gerðinni ATLAS og eru þeir framleiddir í bláum lit með mynd af íþróttaálfinum og bleikum lit með mynd af Sollu stirðu. Innflytjandi hjálmanna er Safalinn ehf.

Í tilkynningu segir að ákvörðun Neytendastofu feli í sér að Safalanum ehf. beri að fjarlægja öll óseld eintök hjálmanna af markaði þegar í stað. Hjálmarnir hafa að sögn Neytendastofu meðal annars verið til sölu í verslun Hagkaups í Smáralind.

Ástæða þess að hjálmarnir eru teknir úr umferð er að umbúðir þeirra hafa verið ranglega merktar og ekki í samræmi við lög, reglur og staðla sem um framleiðslu þeirra gilda. „Merkingar gefa til kynna að þá megi nota á skíðum en svo er ekki og skulu þeir eingöngu notaðir á reiðhjólum, hjólaskautum og hjólabrettum."

Þá segir að á umbúðum sé röng staðhæfing um að hjálmarnir séu vottaðir af Forvarnarhúsi Sjóvá, Umferðastofu og Slysavarnarfélaginu.

Ennfremur eru stærðarmerkingar á umbúðum ekki í samræmi við merkingar á hjálmunum sjálfum en þeir eru ætlaðir fyrir börn með höfuðstærð 54 -58 cm en ekki 49 - 57 cm líkt og fram kemur á umbúðum. „Einnig vantar upplýsingar um númer staðals á umbúðir og að hjálminn megi ekki nota við ákveðnar aðstæður, s.s. klifur," segir einnig og þess getið að engar tilkynningar hafi borist Neytendastofu um slys af völdum hjálmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×