Innlent

Níræður fastur í innkeyrslunni: „Það er ekkert við þessu að gera“

Valur Grettisson skrifar
Þau eru fjölbreytt verkefnin sem borgarstarfsmennirnir þurfa að takast á við. Meðal annars að ryðja tjörnina.
Þau eru fjölbreytt verkefnin sem borgarstarfsmennirnir þurfa að takast á við. Meðal annars að ryðja tjörnina.

„Við getum ekki bara látið snjóinn hverfa," segir Guðni Hannesson, yfirverkstjóri gatnahreinsunar hjá Reykjavíkurborg, en það hefur verið óvanalega snjóþungt í borginni síðastliðna daga. Svo hefur borið á því að snjór hefur stíflað innkeyrslur eftir mokstur.

Þannig hafði íbúi á níræðisaldri samband við Vísi í morgun en hann var ósáttur við að bíllinn hans varð innlyksa í innkeyrslunni eftir snjómokstur borgarstarfsmanna í Hlíðunum í morgun.

Guðni segir fjölmargar kvartanir hafa borist vegna þessa, „en það er ekkert við þessu að gera. Við getum bara skafið göturnar."

Hann segir viðbrögð fólks misheiftarleg, sumir hafi hringt illir vegna smá ökklahryggs, eins og Guðni orðar það sjálfur. Aðrir hafi hringt af góðri ástæðu.

„Okkar verk er bara að halda götunum opnum. Þetta er eins og á sjónum, þá fær maður smá gusu á sig og lítið við því að gera," segir Guðni sem segir borgarbúa þurfa einfaldlega að takast á við þessar aðstæður.

Aðspurður hvað snjómoksturinn hafi kostað borgina undanfarna daga svarar Guðni því til að hann hafi engar tölur á hreinu.

„En um helgina voru 23 vélar í gangi og það kostar tíu þúsund kall á tímann," segir Guðni.

Hann segir snjómoksturinn hafa gengið þokkalega síðan snjórinn byrjaði kyngja niður í síðustu viku. Nú eru starfsmenn borgarinnar að ryðja götur upp í Grafarholti og nærliggjandi hverfum vegna skafrennings.

Snjómoksturinn hefst í raun klukkan þrjú á nóttinni en allar stofnæðar ættu að vera orðnar ökufærar um klukkan sjö að sögn Guðna. Síðan er hafist handa við að ryðja smærri götur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×