Samkvæmt heimildum Vísis var aðgerðin afar umfangsmikil en á milli fjörutíu og fimmtíu manns komu að henni. Naut embætti héraðssaksóknara liðsinnis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögeglunnar á Vesturlandi og sömuleiðis sérfræðinga frá skattrannsóknarstjóra. Leikur grunur á að fleiri hundruð milljónum króna hafi verið skotið undan.

Aðgerðin hófst snemma morguns og var flestum handtökum og húsleitum lokið fyrir klukkan hálf tíu strax um morguninn. Auk hinna níu sem handtekin voru hafa verið teknar skýrslum af fjölda fólks sem tengist málinu. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir sex hinna handteknu og féllst héraðsdómur á kröfuna yfir fimm þeirra.
Fyrirtækin eru fleiri en tvö og starfa á suðvesturhorni landsins en ná þó ekki tug í fjölda. Flestir handteknu eru Íslendingar, að minnsta kosti sex, en þar eru þó einnig útlendingar. Starfsmennirnir eru grunaðir um stórfelld skattalagabrot, brot á bókhaldslögum, fjárdrátt og peningaþvætti. Þá var einnig komið upp um kannabisræktun í aðgerðunum.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir í samtali við Vísi að aðgerðin sé ein sú stærsta sem embættið, sem áður hét embætti sérstaks saksóknara, hafi gripið til. Aðgerðir, undirbúningur og verklag sé mjög sambærilegt við aðgerðir í hrunmálunum. Sú reynsla komi sér vel.

Mikill undirbúningur hafi farið fram í síðustu viku en svo blásið til aðgerða sem fyrr segir snemma morguns á þriðjudag. Á milli 40 og 50 manns hafi komið að aðgerðunum um morguninn en að loknum handtökum og húsleitum hafi fækkað í þeim hópi.
Það reiðufé sem lagt var hald á nemur nokkrum milljónum króna en heildarupphæðin, sem talið er að hafi verið skotið undan, er nærri milljarði króna.
Starfsmennirnir í gæsluvarðhaldi dvelja á Litla-Hrauni þar sem yfirheyrslur fara fram. Þau verða að óbreyttu í gæsluvarðhaldi í viku en óvíst er á þessari stundu hvort ástæða þyki til að fara fram á framlengingu á varðhaldinu.
Málið kom upp við eftirlit skattrannsóknarstjóra sem hafði í kjölfarið samband við embætti Héraðssaksóknara þar sem aðgerðin hefur verið í undirbúningi. Skattrannsóknarstjóri hefur boðað aukið eftirlit í málum á borð við þessum.
„Það hefur verið yfirlýst markmið að styrkja samstarfið á milli þessara aðila meira og grípa vonandi fyrr inn í,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssakóknari.