Viðskipti innlent

Nóbelsverðlaunahafi segir það rétt að gera hlé á ESB viðræðum

Edmund Phelps Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði segir að það sé rétt ákvörðun hjá Íslendingum að gera hlé á aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu. Phelps segir að sú ákvörðun muni verja Ísland gegn mörgum áhættum sem ESB stendur nú frammi fyrir.

Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg fréttaveitunni þar sem rætt er við Nóbelsverðlaunahafann. Phelps segir að hann telji að enginn sé í alvöru að reyna að komast inn í ESB sem stendur. „Umsókn um aðild er eins og að segja: þetta er fallegt hús, það er að vísu að brenna í augnablikinu, en við ættum að kaupa það,“ segir Phelps.

Í fréttinni er haft eftir Bjarna Benediktssyni nýjum fjármálaráðherra Íslands, að helst efnahagsvandamál Íslands séu gjaldeyrishöftin. Phelps segir hinsvegar að aðild að evrusvæðinu muni ekki vera nein vernd gegn því útflæði fjármagns sem höftin koma í veg fyrir í augnablikinu.

Ættu að huga að öðrum gjaldmiðlum

Phelps segir það glapræði fyrir Íslendinga að halda áfram að reyna að komast inn í ESB og taka upp evruna. Ísland væri betur sett með gjaldmiðlasamstarfi við önnur lönd og nefnir Phelps norsku krónuna og kanadíska dollarann í þeim efnum.

„Það er vissulega vert að skoða málið,“ segir Phelps. „Þegar spurningin er komin fram er eðlilegt að skoða aðra möguleika. Hvað með Ástralíu eða Sviss? Og í framhjáhlaupi, hvað með bandaríska dollarann? Ég hef séð verri gjaldmiðla í heiminum,“ segir Phelps sem telur að það sé ekkert verra að tengja krónuna við bandaríkjadollar en kanadadollarann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×