Innlent

Notum þjónustu sérfræðinga meira en góðu hófi gegnir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Íslendingar leita meira til sérfræðilækna en aðrar þjóðir og hlutfall notkurnar á sneiðmyndatökum hér er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þetta á stóran þátt í miklum kostnaði í heilbrigðiskerfinu, að því er fram kemur í skýrslu OECD.

Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er fjallað nokkuð um íslenskt heilbrigðiskerfi og kostnaðinn við rekstur þess.

Í skýrslunni er fjallað með jákvæðum þætti um íslenskt heilbrigðiskerfi. Þar segir t.d að lífslíkur nýbura hér á landi séu með því hæsta sem þekkist meðal OECD-ríkjanna og kostnaður í heilbrigðiskerfinu á hvern íbúa sé ekki óeðlilega hár.

Það sem er hins vegar vegar sérstakt við íslenskt heilbrigðiskerfi er óvenjulega mikill fjöldi heimsókna til sérfræðinga. Íslendingar virðast sækja mjög mikið beint til þeirra í stað þess að leita til heimilislæknis fyrst.

Um það bil helmingur allra læknisheimsókna almennings eru heimsóknir til sérfræðinga. Þetta er mun hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum og mjög hátt í samanburði við önnur OECD ríki.

Í skýrslu OECD segir að það sem ýti undir þetta sé skortur á hliðvörslu (e. gatekeeping) í heilbrigðiskerfinu, sem sé mjög óvenjulegt fyrir heilbrigðiskerfi sem er að mestu leyti fjármagnað með skattfé. Hliðvarsla af þessu tagi myndi beina sjúklingum í rétta átt hverju sinni, en í reynd er um að ræða tilvísanakerfi. Það virkar þannig að sérfræðingar fá tilvísanir frá heimilislæknum, en geta ekki leitað beint til þeirra. Slíkt kerfi er við lýði í nágrannalöndum, bæði Danmörku og Noregi.

Kerfi af þessu tagi er nú til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu. David Carey hagfræðingur hjá OECD segir að við innleiðingu á slíku kerfi myndi nást fram umtalsverður sparnaður.

Annað sem er óvenjulegt í íslensku heilbrigðiskerfi  samkvæmt skýrslu OECD er mikil notkun á segulómun, eða MRI. Aðeins þrjú OECD ríki hafa fleiri slíkar myndatökur á hvern íbúa, en það eru Tyrkland, Lúxemborg og Bandaríkin. Þá er notkun sneiðmynda (Computed Tomography Scan) jafn mikil og aðeins þrjú ríki nota sneiðmyndatökur í meira mæli en við Íslendingar.

Bandaríkjamenn tróna á toppnum í notkun slíkrar tækni, bæði þegar sneiðmyndir og segulómun eru annars vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×