Innlent

Ný hola boruð á næstu dögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hellisheiðarvirkjun er sú stærsta af sinni tegund í veröldinni.
Hellisheiðarvirkjun er sú stærsta af sinni tegund í veröldinni. vísir/vilhelm
Áður en langt um líður mun Orka náttúrunnar hefja framkvæmdir við nýja borholu á Hellisheiði en hún verður fyrsta nýja vinnsluholan við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2009. Með þessu er stefnt er að því að fá meiri gufu og minna vatn úr jarðhitakerfinu. Vatnsmiklar holur fá hvíld gangi borunin eins og best verður á kosið.

„Þau ráð sem brugðið var á, að taka til nýtingar vatnsmiklar holur, reyndust vel til skamms tíma. Nú þegar það árar betur hjá okkur erum við betur í stakk búin að hefja boranir að nýju, en viðhaldsboranir eru hluti þess að reka jarðvarmavirkjun,“ segir Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda hjá Orku náttúru. „Til framtíðar sjáum við fyrir okkur að hafa alltaf meiri gufu tiltæka fyrir virkjunina en notuð er á hverjum tíma og að því erum við að vinna.“

Frá árinu 2013 hefur verið unnið að því að viðhalda afkastagetu Hellisheiðarvirkjunar án þess að bora nýjar holur líkt og þörf er á í rekstri jarðvarmavirkjana. Það hefur verið gert með því að nýta tiltölulega kaldar og vatnsmiklar holur sem gefa hlutfallslega litla gufu. Samtímis hefur verið unnið að lagningu gufulagnar frá borholum við Hverahlíð og áætlað er að ljúka þeirri framkvæmd um næstu áramót.

Nýting á vatnsmiklum gufuholum er ekki heppileg til lengri tíma. Vatnsmagnið eykur þörf á niðurrennsli við virkjunina og getur dregið úr sjálfbærni nýtingar þar sem óþarflega mikill vökvi er tekinn upp úr jarðhitakerfinu. Raforkuframleiðslan í virkjuninni hefur minnkað meira en áætlað var og því er nauðsynlegt að bora nýja holu samhliða lagningu Hverahlíðarlagnar.

Engin ný hola hefur verið boruð á Hellisheiði frá 2009 og nú stendur yfir borun við Nesjavelli, í fyrsta sinn síðan 2008. Misjafnt er eftir svæðum hversu ört þarf að bora nýjar holur en gert er ráð fyrir viðhaldsborunum í rekstrarforsendum beggja virkjananna. Hver vinnsluhola á háhitasvæðum kostar 600-800 milljónir króna. Gert er ráð fyrir þessum kostnaði í áætlunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×