Innlent

Nýbakaðar mæður ætla að berjast áfram við Þjóðskrá

Snærós Sindradóttir skrifar
Úlfhildur Eysteinsdóttir og Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir ásamt ellefu daga gamalli dóttur sinni, sem enn hefur ekki fengið nafn.
Úlfhildur Eysteinsdóttir og Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir ásamt ellefu daga gamalli dóttur sinni, sem enn hefur ekki fengið nafn. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég hef ákveðið að fara þá leið að skila ekki inn þessum vottorðum þegjandi,“ segir Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, nýbökuð móðir sem stendur í stappi við Þjóðskrá um að fá móðerni sitt viðurkennt. Aldís og kona hennar, Úlfhildur Eysteinsdóttir, eignuðust stúlku þann 23. ágúst síðastliðinn.

Fréttablaðið hefur síðustu daga greint frá því að lesbískar mæður þurfi að skila inn vottorði til Þjóðskrár, eftir að þær eignast barn, þess efnis að þær séu báðar samþykkar tæknifrjóvgun. Gagnkynhneigð pör þurfa ekki að skila inn slíku vottorði, jafnvel þó þau hafi farið í tæknifrjóvgun og fengið gjafasæði.

„Mér finnst Þjóðskrá vera að segja með þessu að einhvern veginn séu lesbíur óheiðarlegri samfélagsþegnar en aðrir. Gagnkynhneigð pör eru aldrei spurð þó að þar séu meiri líkur á að barn geti verið rangfeðrað,“ segir Aldís.

Þegar dóttir Aldísar og Úlfhildar var vikugömul barst bréf inn um póstlúguna þess efnis að samkvæmt barnalögum yrðu þær að staðfesta við Þjóðskrá hvernig dóttirin kom undir. Aldís segir að hún hafi orðið reið þegar bréfið barst. Það sé erfitt að halda uppi harðri baráttu við stofnun á jafn viðkvæmum tíma og þegar barn er nýfætt. „Í raun og veru vissi ég af því að það væri enn í dag verið að mismuna samkynhneigðum konum sem eignast börn. En ég var kannski alveg búin að gera mér grein fyrir andlegu hliðinni.“

Hún segir að margar mæður í sömu stöðu séu reiðar. „Sumar konur eru ósáttar við að verið sé að þvinga okkur til að fara í gegnum einkarekna stofu. Í dag er búið að segja að lesbíur geta átt börn með gjafasæði. Af hverju kemur það Þjóðskrá við hvernig við gerðum það eða með hvaða sæði?“

Hún segir þær velta fyrir sér að kanna réttarstöðu sína. „Við erum alveg hópur af lesbíum sem eigum börn eða erum barnshafandi sem erum tilbúnar að fara lengra. Við vonum að með því að skrifa kvörtunarbréf og með því að leita annarra leiða muni annaðhvort innanríkisráðuneytið eða Þjóðskrá taka ákvörðun um að breyta þessu. Ef það gerist ekki þá förum við með það lengra því þetta er hrein og klár mismunun.“


Tengdar fréttir

Lesbíum mismunað hjá Þjóðskrá

Lesbískar mæður þurfa að staðfesta við opinberar stofnanir hvernig barn þeirra kom undir. Hið sama gildir ekki um gagnkynhneigð pör sem eignast barn með tæknifrjóvgun.

Vilja breyta reglum um lesbíur

"Við vildum svo gjarnan að sama staða gilti fyrir gagnkynhneigð pör í hjúskap og samkynhneigð pör,“ segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×