
Um er að ræða heimildarmynd þar sem fjallað er um að heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr og nýir tímar kalla á breytt hugarfar og meðvitaða skynjun. InnSæi býður áhorfendum í ferðalag inn í hulinn heim innra með hverju og einu okkar. Á ferðalagi leikstjóranna, Kristínar og Hrundar, fylgjast þær með skólabörnum í Bretlandi sem er kennt með hjálp taugalíffræði og núvitundar að takast á við aukið upplýsingaflæði, streitu og auknar kröfur sem gerðar eru til þeirra. Reynsla barnanna sýnir þeim að InnSæi er lykillinn að þeim sköpunarkrafti sem við þurfum á að halda til að einbeita okkur, dafna og takast á við nútímasamfélag.

Fyrir utan þær Hrund og Kristínu taka einnig þátt þau Alexandra Marguerite Clémentine Cousteau, náttúruverndarsinni og könnuður hjá National Geographic, og Tim Renner sem situr í menningarmálaráði Berlínarborgar, fyrrverandi forstjóri Sony í Evrópu og rithöfundur.
„Það er mikill heiður fyrir okkur að fá þessa panelista með okkur, sem eru framúrskarandi sérfræðingar og frumkvöðlar á vettvangi alþjóðlegra stjórnmála, nýsköpunar, loftslagsbreytinga, lista og menningar. Undir frábærri handleiðslu Lisu Witter munum við kryfja erindi InnSæis við samtímann og líf okkar allra í samtali við áhorfendur,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir, handritshöfundur og annar leikstjóra InnSæis.
Í myndinni koma fram heimsþekktir leiðtogar og hugsuðir á sviði lista, vísinda og fræða sem leiða okkur inn í margræðan heim InnSæis. Á meðal viðmælenda eru listakonan Marina Abramovic, geðlæknirinn og höfundurinn Iain McGilchrist og dr. Daniel Shapiro, sérfræðingur í átakafræðum og samningatækni.
„Þessi magnaði hópur fólks hugsaði sig ekki tvisvar um áður en þau samþykktu að vera með í myndinni, – svo brýnt þótti þeim erindi hennar. Þau koma úr mjög ólíkum áttum, bæði hvað varðar sérþekkingu og menningarheima, og þannig opna þau á víðsýnan og ögrandi hátt inn í heim InnSæis. Sem dæmi heyrum við hvað InnSæi tengist alþjóðlegum áskorunum, viðskiptum, dómgreind, ákvarðanatöku, ofbeldi, sköpunarkraftinum, náttúrunni og samkennd,“ segir Hrund um viðmælendurna í InnSæi.
Innsaei - the Sea within - Trailer 2015 from Klikk Productions on Vimeo.