Sigríður Björk Guðjónsdóttir var í gær skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, fyrst kvenna.
„Þetta leggst mjög vel í mig,“ segir Sigríður. „Það er alltaf gaman að taka við nýrri stofnun, kynnast fólkinu og finna hvar hægt er að gera betur.“
Sigríður, sem hefur verið lögreglustjóri á Suðurnesjum frá árinu 2009, tekur við af Stefáni Eiríkssyni sem hefur verið ráðinn í starf sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Hún segir nýjar áherslur alltaf fylgja ráðningu nýs fólks.
„Ég myndi vilja sjá einhverjar af þeim áherslum sem við höfum staðið fyrir á Suðurnesjum í höfuðborginni, eins og áherslur á heimilisofbeldi,“ segir Sigríður. „En það er of snemmt að segja eitthvað afgerandi með það.“
Ólafur Helgi Kjartansson sem hefur verið sýslumaður á Selfossi tekur við starfi Sigríðar Bjarkar á Suðurnesjum en Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, fer í starf hans.
Samkvæmt nýjum lögum verður lögregluumdæmum fækkað úr 15 í níu um næstu áramót. Tvö embætti verða auglýst á næstu dögum, embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum. Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að með fækkun embættanna verði þau öflugri og yfirbygging minni.
Nýr lögreglustjóri: Vill sjá nýjar áherslur í borginni
Bjarki Ármannsson skrifar
![Sigríður Björk verður fyrsti kvenkyns lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.](https://www.visir.is/i/BA4C24E71E0611C4770C7A2BF38DA30DE53229E6726191BADB762AB2F6780EB5_713x0.jpg)