Viðskipti innlent

Nýsköpun: Íslendingar eftirbátar nágranna sinna

Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ísland mælist í einu af neðstu sætunum hvað varðar nýsköpun þegar kemur að samanburði við hin Norðurlöndin. Norræna nýsköpunarvogin, sem nýlega var gefin út af Norrænu ráðherranefndinni leiðir þetta í ljós. Í tilkynningu frá nefndinni er bent á að yfirleitt komi Ísland vel út úr alþjóðlegum samanburði á frumkvöðlastarfsemi og því komi niðurstöðurnar nokkuð á óvart.

Í skýrslunni er í fyrsta sinn bornar saman aðstæður norrænna frumkvöðla. Danmörk og Finnland skipa efstu sætin, Svíþjóð er á miðjum lista og Noregur rekur lestina. Ísland er í góðri stöðu hvað umgjörð um frumkvöðlastarfsemi varðar, en lakari þegar litið er til þess að stofna nýtt fyrirtæki og koma því í góðan rekstur. Ástæðan fyrir því að Ísland kemur venjulega vel út í alþjóðlegum könnunum á frumkvöðlastarfi er að oft byggja þær á persónulegu mati, segir einn af höfundum skýrslunnar. Norræna nýsköpunarvogin byggir hins vegar á fjölmörgum hlutlægum þáttum, eins og fjölda nýrra fyrirtækja og hvernig þau standa sig í samkeppni.

En Norðurlöndin standa sig ekki vel í samanburði við t.d. Bandaríkin , sérstaklega þegar litið er til vaxtar fyrirtækja, hin mörgu nýju fyrirtæki ná með öðrum orðum ekki að festa sig í sessi. „Mörg ný fyrirtæki eru stofnuð á Norðurlöndum, sem bendir til þess að svæðið hafi leyst vandann við að koma þeim á fót. En fjöldi nýrra fyrirtækja endurspeglast ekki í miklum vexti og norrænu ríkin njóta því ekki ávaxta þess að stofnað er til margra nýrra fyrirtækja", er bent á í skýrslunni.

Þá segir að það myndi gagnast norrænu ríkjunum ef þau efldu samstarf um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi til þess að geta betur tekist á við úrlausnarefni hnattvæðingarinnar, segir í niðurstöðu skýrslunnar.

Norræna nýsköpunarvogin staðfestir að ef við ætlum að standa okkur í alþjóðlegri samkeppni, þá verðum við að vinna miklu betur saman á Norðurlöndum, segir Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í tilefni útgáfunnar.

Ef litið er til allra þátta þá eru Danir Norðurlandameistarar í frumkvöðlastarfi, þrátt fyrir að þeir eigi erfitt með að laða að erlent vinnuafl. Finnar eru í öðru sæti, sérstaklega vegna góðrar umgjarðar og aðstæðna um frumkvöðlastarf.

Norðmenn eru í neðsta sæti, þrátt fyrir að hafa greiðastan aðgang að fjármagni og Svíar eru á miðjum lista. Íslendingar, sem venjulega koma vel út í samanburði á frumkvöðlastarfi, koma ekki vel út úr þessari rannsókn, þrátt fyrir hagstæðar aðstæður og umgjörð. Þeir reka lestina þegar litið er til vaxtar og fjölda nýrra fyrirtækja.

Í Svíþjóð og Finnlandi eru það aðallega stífar vinnumarkaðsreglur sem hefta framþróun, samkvæmt skýrslunni.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×