Innlent

Óásættanlegt að leyfi hafi verið veitt

Ótti Fullyrðingar um að ræktun á erfðabreyttu byggi í Ölfusi sé hættulaus hafa ekki slegið á ótta við að erfðabreyttar plöntur komist út í íslenska náttúru.
Ótti Fullyrðingar um að ræktun á erfðabreyttu byggi í Ölfusi sé hættulaus hafa ekki slegið á ótta við að erfðabreyttar plöntur komist út í íslenska náttúru.
Hópur fólks og félaga sem eru andvíg því að erfðabreytt bygg verði ræktað í gróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi skorar á sveitarstjórnir á svæðinu að beita sér fyrir því að leyfi til ræktunarinnar verði afturkallað.

Í greinargerð sem hópurinn hefur skrifað er Umhverfisstofnun harðlega gagnrýnd fyrir að kynna málið ekki fyrir sveitastjórn í Hveragerði eða hagsmunaaðilum í nágrenni gróðurhússins. Þá er það gagnrýnt að engin grenndarkynning hafi átt sér stað og íbúar því ekki fengið tækifæri til að vega og meta áhrif leyfisveitingarinnar.

Telur hópurinn einnig að heilbrigði umhverfis nærri gróðurhúsinu, auk ímyndar svæðisins, sé stefnt í hættu með því að leyfa ræktunina.

Meðal þeirra sem skrifaðir eru fyrir greinargerðinni eru Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, Samtök lífrænna neytenda, Slow Food samtökin á Íslandi og Neytendasamtökin.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu er gróðurhúsið þar sem ræktunin mun fara fram í innan við þúsund metra fjarlægð frá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

Umhverfisstofnun veitti leyfi fyrir ræktuninni 30. nóvember síðastliðinn. Í greinargerð stofnunarinnar segir að engar líkur séu á því að plönturnar sem ræktaðar verða í gróðurhúsinu hafi áhrif á plöntur utan þess.- bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×