Innlent

Oddný: Veit ekki hvort ég verð ráðherra

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd/Anton Brink
„Það hef ég ekki hugmynd um," segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, aðspurð hvort hún taki senn sæti í ríkisstjórn. „Ég heyrði þetta bara í féttunum."

Stokkað verður upp í ríkisstjórninni á næstu dögum. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða báðir utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra látin fara. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur rætt við flesta þingmenn Samfylkingarinnar í dag, þar á meðal Oddnýju. Líklegt er að nýr ráðherra komi inn fyrir Samfylkinguna og er Oddný nefnd í því sambandi.

„Þetta kemur í ljós að ég held á morgun," segir Oddný.

Aðspurð hvort hana hugnist að taka sæti í ríkisstjórn segir Oddný: „Já, ég get alveg sagt játað því og ég held að það eigi við um flesta þingmenn. Þeir vilja komast í þessa stöðu til að hafa sem mest áhrif."

Oddný var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í kosningunum í apríl á síðasta ári. Hún var bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs á árunum 2006-2009.


Tengdar fréttir

Össur þögull

„Þú hefur alltaf haft betri heimildir en ég. Ég rengi það ekki,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, við fréttamann þegar hann kom út af fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytinu í kvöld.

Katrín Júlíusdóttir: Ekki með von í brjósti

„Það hefur blasað við að breytingar yrðu gerðar á kjörtímabilinu í tengslum við hugsanlegar breytingar á Stjórnarráðinu. Vonandi erum við að sjá í land með þær og það felur auðvitað í sér breytingar,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, áður en hún gekk í Stjórnarráðshúsið á sjöunda tímanum í kvöld.

Ragna og Gylfi hætta

Stokkað verður upp í ríkisstjórninni á næstu dögum, jafnvel strax á morgun eða þegar þing kemur saman á fimmtudag. Ráðherrum verður fækkað um tvo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×