Innlent

Of hættulegt að reyna að ná bílnum úr Jökulsárlóni

Birgir Olgeirsson skrifar
Bíllinn mun mögulega aldrei finnast segir staðarhaldari við lónið.
Bíllinn mun mögulega aldrei finnast segir staðarhaldari við lónið. Jónas Jónasson
Lögreglan á Suðurlandi mun ekki reyna að ná bíl upp úr Jökulsárlóni sem rann mannlaus út í lónið á miðvikudag. Að mati lögreglunnar er of hættulegt fyrir kafara að nálgast bifreiðina og mun lögreglan því ekki aðhafast frekar vegna rannsóknar á málinu.

„Það er í raun og veru ljóst að þessar aðstæður eru alltaf breytilegar þar sem jakarnir eru á hreyfingu. Á þessu stigi er metið sem svo að verkefnið er afar flókið og getur verið einstaklega hættulegt fyrir kafara að nálgast bifreiðina, þannig að lögregla mun ekki nálgast það út frá rannsóknar hagsmunum,“ segir Jóhann Hilmar Haraldsson, lögreglumaður á Höfn í Hornafirði, um málið.

Sjá einnig: Ömur­legur endir á Ís­lands­dvöl í Jökuls­ár­lóni: „Is it our car?“

Spurður hvort að það muni í náinni framtíð koma að því að reynt verði að ná bílnum á þurrt segir hann það vera breytingum háð. „Þessi staður breytist svo oft. Það gætu komið góðar aðstæður, en þær eru ekki núna.“

Olía gæti hugsanlega lekið frá bílnum en Jóhann segir lögreglu hafa gert Umhverfisstofnun viðvart vegna málsins. Hjá Umhverfisstofnun var ekki búið að taka ákvörðun hvort eitthvað verði aðhafst en bent á að Jökulsárlón sé ekki friðlýst svæði. Þá er Jökulsárlón ekki hluti af þjóðgarði Vatnajökuls og því mun Vatnajökulsþjóðgarður ekki aðhafast í málinu.

Einar Björn Einarsson, staðarhaldari við Jökulsárlón, á ekki von á því að bílnum verði náð upp úr lóninu. Hann segir strauminn svo mikinn í lóninu að það gæti orðið verulega kostnaðarsamt að finna bílinn, sem fór út í lónið við enda varnargarðsins í Jökulsárlóni.

Einar segir að svo gæti farið að bíllinn finnist aldrei, en ekki sé hægt að útiloka að hann hreinlega skili sér einn daginn upp í fjöru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×